Árni nýr formaður Íþróttafélagsins Þórs

Félagssvæði Þórs við Hamar. Mynd: Hörður Geirsson
Félagssvæði Þórs við Hamar. Mynd: Hörður Geirsson

Árni Óðinsson var kosinn nýr formaður Íþróttafélagsins Þórs á aðalfundi félagsins sem fram fór í Hamri í gærkvöld. Árni tekur við formennsku af Sigfúsi Ólafi Helgasyni sem gaf ekki kost á sér eftir sex ár í starfi. „Þetta leggst gríðarlega vel í mig. Ég er búinn að starfa í kringum þetta félag í 25 ár en hins vegar ýmislegt sem ég þarf að læra. Við ætlum að vera enn sýnilegri og ná enn betri árangri á komandi árum, bæði félagslega og á íþróttasviðinu. Það eru allar forsendur til þess að gera vel,“ sagði Árni í samtali við Vikudag.  Fram kom á fundinum í gær að félagið skilaði 760 þúsund króna hagnaði síðasta starfsár.

Árni var einn í kjöri og var einróma kjörin formaður félagsins. Ný stjórn Þórs auk Árna skipa þau Arnar Friðriksson, Helgi Ómar Pálsson, Páll Jóhannesson, Sverrir Torfason, Vigdís Lovísa Rafnsdóttir og Viðar Ólason. Varamenn verða þau Jóhann Sigurðsson og Sigurpáll Árni Aðalsteinsson.

Nýjast