Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Þórs/KA, hefur verið valinn í 25 manna landsliðshóp kvenna í knattspyrnu sem kemur til æfinga í janúar á næsta ári, en Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari tilkynnti hópinn í gær. Er þetta í fyrsta skiptið sem Arna er valinn en hún á fjölmarga leiki að baki með yngri landsliðum Íslands.
Tveir aðrir leikmenn úr röðum Þórs/KA voru einnig valdir í hópinn en það eru þær Rakel Hönnudóttir og Silvía Rán Sigurðadóttir. Silvía hefur einu sinni áður verið valinn í landsliðshópinn, gegn Eistum sl. september, en fékk ekki að spreyta sig. Rakel á hins vegar 22 landsleiki að baki.
Framundan eru verðug verkefni hjá íslenska landsliðinu en í febrúar á næsta ári tekur liðið þátt í Algarve Cup í Portúgal og í mars leikur liðið þýðingarmikla leiki í undankeppni HM.