Andri Fannar Stefánsson var á skotskónum fyrir KA í dag þegar liðið gerði 3:3 jafntefli gegn Íslandsmeisturunum í FH í Boganum í A- deild Lengjubikarskeppni karla í knattspyrnu. Andri skoraði öll þrjú mörk KA í leiknum en fyrir FH skoruðu þeir Atli Viðar Björnsson, Gunnar Már Guðmundsson og Pétur Viðarsson sitt markið hver.
KA náði þar með í sitt fyrsta stig á mótinu og það gegn Íslandsmeisturunum. Það er ekki síst góður árangur í ljósi þess að KA lék manni færri í heilar 70 mínútur þar sem Dean Martin fékk að líta rauða spjaldið snemma í fyrri hálfleik.
Þar með tapaði FH sínum fyrstu stigum í keppninni, en liðið hefur sjö stig eftir þrjá leiki en KA hefur eitt stig eftir fjóra leiki.