Kallað hefur verið eftir endurnýjun í íslenskum stjórnmálum en ljóst er að rétt er að hefjast löng vegferð til réttlátara samfélags. Það er tvímælalaust stærsta forgangsmál næsta kjörtímabils að beina sjónum að heiðarlegum, réttsýnum og hreinlegum stjórnmálum. Auka þarf aðkomu almennings að ákvarðanatöku auk þess sem stefnumótun bæjarfélagsins þarf að taka mið að þörfum beggja kynja. Á tímum efnahagsþrenginga skiptir forgangsröðun meginmáli. Mikilvægasta auðlegð samfélagsins felst í komandi kynslóðum og tryggja þarf jafnan aðgang ungmenna að menntun og tómstundum.
Lífæð hvers samfélags felst í fólkinu sem það byggir og því umhverfi sem því er búið. Ekkert samfélag þrífst án tækifæra til atvinnu og eins og það er mikilvægt að leita nýrra leiða til atvinnusköpunnar á nýjum vettvangi þarf að búa atvinnulífinu sem fyrir er betri og lífvænlegri skilyrði. Skipulag bæjarfélags þarf að fara fram á forsendum fólksins til að þróa megi lífrænt og gott samfélag.
Andrea Hjálmsdóttir er 39 ára. Hún er fædd og uppalin á Akranesi en hefur verið búsett á Akureyri síðastliðinn 10 ár. Andrea lauk sveinsprófi í gullsmíði árið 1996 og starfaði sem slíkur til ársins 2002 þegar hún hóf nám í Háskólanum á Akureyri. Úr HA útskrifaðist hún vorið 2007 með BA gráðu í nútímafræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Andrea lauk svo meistaraprófi í félagsfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu í Vancouver, Kanada haustið 2009. Hún starfar sem aðjúnkt við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Andrea er gift Halli Gunnarssyni, tölvunarfræðingi og eiga þau tvær dætur, Fönn 10 ára og Dögun 5 ára, segir í fréttatilkynningu.