Í gærkvöld varð minniháttar ammoníak-leki í verksmiðju Vífilfells á Akureyri. Lekinn var stöðvaður um kl. 21:10. Lekinn varð vegna bilunar í kælikerfi sem er hluti af bjórframleiðslu fyrirtækisins. Bilunin fólst í því að svokallaður eimsvali stöðvaðist en varapressur fóru í gang sem olli því að þrýstingur byggðist upp í kælikerfinu. Vegna þrýstingsins opnuðust öryggislokar sem hleyptu ammoníakinu út. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vífilfell.
Carlos Cruz forstjóri Vífilfells hefur upplýst Eirík Björn Björgvinsson bæjarstjóra á Akureyri um málsatvik og þær aðgerðir sem Vífilfell mun grípa til í framhaldinu svo hindra megi að slíkt atvik geti endurtekið sig. Ekki er búist við því að bilunin hafi nein áhrif á bjórframleiðsluna í verksmiðjunni og verður kælikerfið komið aftur í gang síðar í dag.
Vífilfell harmar atvikið og biður Akureyringa velvirðingar á því.
Ammoníak er gastegund sem leitar upp en vegna vindaðstæðna í gærkvöldi þá barst lyktin yfir nærliggjandi svæði og stórverslun í nágrenninu. Þar fannst lyktin og var versluninni lokað og slökkviliðið kallað út. Slökkviliðið kom einnig að verksmiðjunni en ekki reyndist þörf fyrir neinar aðgerðir á vettvangi. Starfsmenn Vífilfells og sérfræðingar kælifyrirtækis sem þjónustar verksmiðjuna höfðu þegar komist fyrir vandamálið.
Ekki er talið hættulegt að anda að sér ammoníaki í litlu magni. Í meira magni getur það valdið óþægindum í augum og öndunarvegi. Lyktin af ammoníaki er mjög vond, og er best lýst eins og lyktinni af kæstri skötu.