Í október næstkomandi verður í fyrsta sinn haldin á vegum Könnunarsögusafnsins á Húsavík sérstök Hátíð Landkönnuða. Þegar hafa nokkrir þekktir könnuðir og vísindafólk boðað komu sína til bæjarins. Samhliða hátíðinni verða settar upp tvær listsýningar og að sögn Örlygs Hnefils Örlygssonar, forstöðumanns Könnunarsögusafnsins, verður á næstunni kynnt samstarf við ferðaskrifstofuna Ísafold Travel um leiðangur í tengslum við hátíðina.
Þessi hátíð landkönnuða er fyrirhuguð dagana 20. til 23. október og stefnt er að því að hún verði árviss. Fluttir verða fyrirlestrar, sýningar verða sem tengjast könnum í víðum skilningi hugtaksins, tónleikar, kvikmyndasýningar og sitthvað fleira.
Meðal fyrirlesara á hátíðinni verða Íslendingarnir Ari Trausti Guðmundsson og Arna Vilborg Gissurardóttir. Nánar um málið í héraðsfréttablaðinu Skarpi sem kemur út í dag. JS