Mömmur og möffins er góðgerðarviðburður þar sem að sjálfboðaliðar (mömmur og börn þeirra) koma saman, baka möffins og skreyta. Síðan 2010 hefur þessi viðburður verið haldin um verslunarmannahelgina á hátíðinni Einni með öllu og eru mömmur og möffins orðinn ómissandi liður í dagskrá hátíðarinnar. Viðburðurinn fer fram við Hólabraut á laugardag.
Allur ágóði af sölunni rennur svo beint til fæðingardeildarinnar á Akureyri. Undanfarin ár hefur sá peningur verið að koma sér rosalega vel til kaupa á ýmsum tækjum
Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir skipuleggja viðburðinn í ár, en þetta er í fimmtánda sinn sem blásið er til þessa vinsæla viðburðar um verslunarmannahelgi á Akureyri.
Sigríður segir í samtali við Vikublaðið að undirbúningur sé á fullu og það gangi sæmilega. Hún kallar eftir fleiri viljugum höndum að verkinu svo allt gangi smurt fyrir sig. „Við erum að bíða eftir svörum frá nokkrum fyrirtækjum, það vantar aðeins upp á það sem okkur langar að gera því við ætlum að breyta aðeins til í ár og vera með sítrónu og gulróta bollakökur auk vanillu og súkkulaði sem við vorum með í fyrra. Svo erum við með vegan bollakökur líka,“ segir Sigríður. „Við vildum bæta við úrvalið af því við erum 15 ára í ár.“
Þá segir Sigríður að Sykurverk hafi tekið að sér að baka vegan bollakökurnar í ár
Það er meira en að segja það að halda utan um viðburð sem þennan þar sem bakaðar eru vel á þriðja þúsund bollakökur og Sigríður segir að það sé ekki hægt nema með þeim frábæru sjálfboðaliðum og styktaraðilum sem koma að þessu með þeim.
„Þetta er mikil törn og við erum að reyna minnka álagið á laugardeginum sjálfum og gefa okkur meiri tíma til að setja upp og svoleiðis á laugardagsmorgninum. Þannig að við ætlum að byrja á fimmtudag núna, líka af því að það fer tími í að rífa gulrætur og sítrónubörk og svoleiðis, þannig að við ætlum að hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ segir hún og bætir við að það komi ótrúlega margar hendur að þessu.
„Ég er ekki komin með endanlega tölu yfir þá sem ætla að aðstoða í ár en þetta er einhvers staðar á milli 15-50 manns sem koma að þessu í heild. Þetta eru einstaklingar sem koma sumir tvo tíma hér og þar en það munar alveg rosalega um það þó að fólk komi ekki nema í styttri tíma í einu,“ útskýrir Sigríður og bætir við að allt snúist þetta um að leggja góðu málefni lið, þ.e. fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri.
„Í fyrra söfnuðum við 1,5 milljónum rúmlega en það er það mesta sem hefur safnast hingað til,“ segir Sigríður og bætir við að hana hlakki til að sjá hver afraksturinn verði í ár.
„Við stefnum að minnsta kosti að því að baka fleiri bollakökur en í fyrra og vonumst auðvitað til þess að það seljist eitthvað af safanum sem við erum með til sölu. Flórídana styrkir okkur um safann. Við gerðum 2262 bollakökur í fyrra en ætlum að reyna gera 2500 núna og vonum að það gangi eftir,“ segir Sigríður og nýtir tækifærið til að óska eftir fleiri sjálfboðaliðum.
„Þetta er glæsilegt málefni og við vonum að þetta gangi smurt fyrir sig. Við þurfum góða sjálfboðaliða svo þetta gangi upp og við þyrftum aðeins fleiri. Okkur vantar aðeins fleiri sem komast meira yfir daginn á föstudeginum og jafnvel á fimmtudag og svo vantar okkur aðeins fleiri hendur til að aðstoða okkur í sölunni,“ segir hún og hvetur mömmur til að taka börnin með sér, og jafnvel makana.
„Það voru einhverjir pabbar sem tóku þátt í fyrra og það verða að minnsta kosti tveir sem mæta í ár. Þeir eru nú ansi góðir í að skreyta, karlmennirnir. Við erum búin að redda svuntum bæði fyrir fullorðna og börn, þannig að börnin eru ansi öflug í að aðastoða,“ segir Sigríður og bætir við að það sé fátt betra fyrir sálina en að láta gott af sér leiða.
„Þetta er ofsalega gefandi og gott fyrir hjartað. Langflestir á Norðurlandi munu þurfa með einum eða öðrum hætti að nota sér fæðingaþjónustuna. Annað hvort sjálfir eða afkomendur og af hverju þá ekki að taka til hendinni og gefa aðeins til baka,“ segir Sigríður að lokum.