Norsk fyrirtæki hafa brugðist við núverandi efnahagssamdrætti með því að úthýsa verkefnum sem tengjast ekki beint kjarnastarfsemi fyrirtækjanna og eru aðilar frá Kelly Services staddir hér á landi til að kanna möguleika á úthýsingu slíkra verkefna til Íslands. Til að byrja með er stefnt á að opna 2-3 þjónustuver á Akureyri sem munu sinna verkefnum á borð við símsvörun og bókhald, og gera má ráð fyrir að samstarf fyrirtækjanna muni skapa allt að 30 ný störf á Akureyri. ITH er nýtt þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að miðla störfum til Noregs og rekstur þjónustuvera fyrir norsk fyrirtæki. ITH nýtur stuðnings Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og er fjármagnað m.a. af fjárfestingasjóðnum Tækifæri.