Skíðasvæðið var opnað 18. nóvember og lokað var formlega 1. maí sl. Á stærsta degi vetrarins voru um 2.300 manns í fjallinu.Guðmundur segir að veðrið hafi oft verið til leiðinda og hann nefndi sem dæmi að alls hafi sex helgar dottið út vegna veðurs og gestir því verið 15-18 þúsund færri en ella. Þá hafi páskarnir brugðist algjörlega þetta árið og þá aðallega vegna veðurs og slæmrar veðurspár fyrir páska. Þetta hafi m.a. komið fram í afbókunum á gistingu. Alls komu um 200 Færeyingar á skíði í Hlíðarfjall í vetur, í tveimur beinum flugum. Þrátt fyrir að Færeyingarnir hafi verið óheppnir með veður á Akureyri báðar helgarnar, segir Guðmundur að þeir séu búnir að panta aftur fyrir næsta ár og að þá komi jafnvel þrjár flugvélar með skíðafólk þaðan. Einnig var nokkuð um að erlendir ferðamenn sem voru á ferð um landið hafi komið á skíði í Hlíðarfjalli.
"Þetta er vetur sem fer í reynslubankann og menn geta ekki alltaf verið á toppnum. Það er óeðliegt að ætlast til þess að hægt sé fjölga hér gestum á hverju ári. Snjólög voru góð í vetur og það hjálpaði en það hefur aldrei verið eins mikið um suðvestanátt og nú. Í Bláfjöllum var töluverður snjór en þar setti veðrið líka strik í reikninginn og það á við víðar um land. Veturinn í Evrópu var líka nokkuð sérstakur, það snjóaði ekki í Ölpunum í sex til átta vikur og í Skandanavíu var seinni partur vetrar handónýtur. Hins vegar var mikill snjór í Norður Ameríku.
Alls eru um 70 manns á launaskrá í Hlíðarfjalli og þar af um 50 manns í hlutastarfi, enda fer um 80% starfseminnar fram um helgar og á hátíðisdögum og þá er mikið um að vera. Nýtt nestishús var tekið í notkun við Skíðahótelið og segir Guðmundur að það hafi verið gríðarlega vel nýtt. "Nestishúsið var fullt alla daga frá morgni til kvölds og maður spyr sig hvar allt þetta fólk hafi komist fyrir áður. Á móti kemur að veðrið var leiðinlegt og fólk þurfti því að borða nestið sitt mun oftar innanhúss en áður," segir Guðmundur.