Formlega verður tilkynnt um hvaða verkefni hljóta stuðning fimmtudaginn 25. mars n.k. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar hófst árið 2004 sem samstarfsverkefni opinberra og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs við Eyjafjörð. Unnið var samkvæmt kenningum um fyrirtækjaklasa þar sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög taka höndum saman um eflingu atvinnulífs. Lögð var áhersla á þær atvinnugreinar sem þegar voru sterkar í Eyjafirði og styðja þær enn frekar til að takast á við alþjóðlega samkeppni. Upphaflegi samningurinn rann sitt skeið á enda í árslok 2007 og höfðu þá mörg góð verkefni litið dagsins ljós til vitnis um góðan árangur. Í ársbyrjun 2008 var svo undirritaður nýr Vaxtarsamningur sem gildir til ársloka 2010. Markmið samningsins er að efla nýsköpun atvinnulífsins á starfssvæði AFE og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Byggt var á góðu starfi eldri samnings, en ýmsar áherslubreytingar gerðar til að efla starfið enn frekar. Samningurinn er ekki lengur einskorðaður við ákveðnar atvinnugreinar, heldur opnaður þannig að aðilar úr öllum atvinnugreinum geta nú tekið þátt. Einnig var samningsforminu breytt þannig að Iðnaðarráðuneytið semur beint við AFE, en aðrir aðilar koma að starfinu á verkefnigrunni. Þetta kemur fram á vef AFE.