Útskrift nemenda Sjúkraflutningaskólans fór fram við hátíðlega athöfn á Sjúkrahúsinu á Akureyri sl. föstudag. Að þessu sinni útskrifuðust 90 nemendur sem lokið höfðu almennu námskeiði í vettvangshjálp, sjúkraflutningum og neyðarflutningum. Liðin eru tíu ár frá því að Sjúkrahúsið á Akureyri tók við resktri skólans og er þetta mesti fjöldi útskriftarnemenda frá upphafi. Í ræðu skólastjóra, Hrafnhildar Lilju Jónsdóttur, var m.a. rakin starfsemi skólans á síðastliðnu skólaári og þar kom fram að starfsemin skólans var svipuð og árið áður en um 292 nemendur sóttu 22 námskeið á vegum Sjúkraflutningaskólans þennan starfsvetur. Þetta skólaár voru ekki aðeins grunn- og neyðarflutninganámskeið haldin með notkun streymis heldur var í fyrsta skipti boðið upp á námskeið í vettvangshjálp með þeirri tækni. Í streymi felst það að fyrirlestur er tekinn upp og sendur út á vefinn þannig að nemendur geta séð og heyrt fyrirlestra hvar og hvenær sem er. Nemendur sem kjósa að taka bóklega hluta námskeiða með þessum hætti mæta síðan í verklegar lotur, en fjöldi þeirra fer eftir tegund námskeiðs. Ávallt er leitast eftir að hafa þessa verklega kennslu sem næst nemendum en í vetur fór verkleg kennsla streymisnámskeiða fram á Akureyri, Selfossi, í Reykjanesbæ, Reykjavík, Hafnarfirði, Borgarfirði eystri og á Ísafirði. Það er samdóma álit að þessi tækni henti vel fyrir þá sem búa í dreifbýli eða sækja námið samhliða starfi.
Eftir afhendingu skírteina var öllum útskriftarnemendum óskað velgengni í starfi. Skólastjóri þakkaði öllum leiðbeinendum og öðrum sem að starfinu hafa komið kærlega fyrir vel unnin störf. Einnig fluttu ávörp Hildigunnur Svavarsdóttir formaður stjórnar skólans, Sigurður E. Sigurðsson umsjónarlæknir sjúkraflutninga á Norðausturlandi og Skjöldur Orri Skjaldarson nýútskrifaður sjúkraflutningamaður. Sellóskvísur frá Tónlistarskólanum á Akureyri fluttu sáu um tónlist upphafi athafnar, segir í fréttatilkynningu.