Allar götur á Akureyri eiga að vera greiðfærar fyrir áramót

„Það gengur ljómandi vel og við gerum ráð fyrir að allar götur bæjarins verði greiðfærar fyrir áramót," segir Gunnþór Hákonarson yfirverkstjóri framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar.  Síðustu daga hefur snjó kyngt niður á Akureyri og mikil vinna hefur verið við að hreinsa hann burt af götum bæjarins.  

Gunnþór segir að um 25 tæki séu notuð við snjómoksturinn, þau eru bæði í eigu bæjarins og verktaka.  Tækin hafa sum hver verið í notkun svo að segja sleitulaust frá því snjókoma hófst um jólin, en þó segir Gunnþór að ákveðnar reglur gildi um bæjartækin, þar sem yfirvinna sé um þessar mundir takmörkunum háð. Hann áætlar að kostnaður við moksturinn þessa síðustu daga nemi um 7 milljónum króna. Í næstu viku taki svo við að hreinsa burtu snjó sem safnast hefur fyrir á götuhornum, umferðareyjum og víðar. „Þannig að þetta er ekki búið, en við stefnum núna að því að klára að hreinsa götur og ég geri ráð fyrir að því verði lokið fyrir áramót," segir Gunnþór.

Hann segir bæjarbúa taka fannferginu með jafnaðargeði, vissulega hringi fólk í framkvæmdadeild til að kanna stöðu mála og hvenær komi að ákveðnum götum, „en það eru allir mjög elskulegir og sýna tillitssemi," segir Gunnþór.

Nýjast