Alls verða 372 kandídatar brautskráðir á háskólahátíð sem haldin verður í Íþróttahöllinni á Akureyri laugardaginn 9. júní nk. og hefst kl. 10:30. Þetta er mesti fjöldi kandídata sem brautskráður hefur verið í einu frá Háskólanum á Akureyri. Af þessum hópi hafa 120 stundað fjarnám fyrir milligöngu háskólasetra og símenntunarmiðstöðva á 14 stöðum á landinu. Hátíðarávarp á háskólahátíð flytur hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Í brautskráningarræðu sinni mun rektor m.a. fjalla um mikilvægi háskóla, samfélagslegt hlutverk þeirra, jafnrétti til náms og framlag Háskólans á Akureyri til íslensks samfélags. Einnig mun hann líta yfir farinn veg í tilefni af 20 ára afmæli háskólans. Flestir kandídatar verða brautskráðir frá kennaradeild eða 150, 93 frá viðskipta- og raunvísindadeild, 68 frá heilbrigðisdeild og 61 frá félagsvísinda- og lagadeild.