27. nóvember, 2007 - 14:44
Akureyringum hefur fjölgað um 360 manns á þessu ári og þarf að leita áratug eða áratugi aftur í tímann til að finna sambærilega fjölgun íbúa á milli ára. Á síðastliðnum 10 árum hefur fjölgað á Akureyri um tæplega 2.200 manns. Þetta kom fram í máli Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur bæjarstjóra á blaðamannafundi nú fyrir stundu, þar sem hún og Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs kynntu fjárhagsáætlun næsta árs, sem tekin verður til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi seinna í dag. Fjárhagsstaða Akureyrarbæjar er sterk og munar þar mestu um sölu bæjarins á hlut sínum í Landsvirkjun, upp á 3,3 milljarða króna. Samkvæmt fjárhagsáætlun verða heildartekjur Akureyrarbæjar á næsta ári 13,2 milljarðar króna, heildargjöld tæpir 13 milljarðar króna og rekstrarafgangur um 260 milljónir króna. Fræðslumál taka rúman helming af útgjöldum aðalsjóðs, eða 3,6 milljarða, til æskulýðs- og íþróttamála fara rúmar 800 milljónir og til félagsmála rúmar 750 milljónir króna. Samtals eru þessir málaflokkar með rúm 80% útgjalda Aðalsjóðs.