Akureyringar sigursælir á Landsmótinu í skólaskák

Akureyringar voru sigursælir á Landsmótinu í skólaskák sem haldið var á Akureyri um helgina. Þeir áttu sigurvegara í bæði yngri flokki (1.-7. bekkur) og eldri flokk (8.-10. bekkur). Þetta er í fyrsta skipti í 32 ára sögu mótsins að báðir sigurvegararnir koma frá Akureyri og segir margt um það öfluga unglingastarf sem þar er rekið. Fyrsta mótið var haldið árið 1979.  

Íslandsmeistararnir nú voru þeir Jón Kristinn Þorgeirsson, Lundarskóla, sem sigraði í yngri flokki og Mikael Jóhann Karlsson, Brekkuskóla sem sigraði í þeim eldri. Landsmótið í skólaskák er í raun og veru fjölmennasta skákmót landsins.   Mótahaldið byrjar í skólum þar sem sigurvegarar fá að tefla á sérstökum kjördæmamótum. Efstu menn kjördæmamótanna vinna sér svo rétt til að tefla á Landsmótinu. Á meðal þeirra sem hafa orðið Íslandsmeistarar í skólaskák í gegnum tíðina má nefna stórmeistarana Jóhann Hjartarson, Þröst Þórhallsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Héðin Steingrímsson og Helga Áss Grétarsson.

Nýjast