Látið úr höfn mynd Hafnasamlag Norðurlands
Segja má að ákveðin vertíðarlok séu nú að ganga yfir hjá starfsfólki Hafnasamlagsins en í s.l viku fóru síðustu stóru skemmtiferðaskipin sem heimsækja bæinn á þessu sumri úr höfn.
Á samfélagsmiðlum Hafnasamlangsisn er eftirfarandi að finna:
,,Norwegian skipin tvö, Star og Prima kvöddu okkur í liðinni viku og kemur Norwegian Prima í raun ekki aftur til okkar fyrr en í júní 2027. Þetta eru síðustu stóru skemmtiferðaskipin hingað þetta sumarið, um helgina kom reyndar eitt lítið skip og svo koma tvö í október.
Sumarið hefur heilt yfir gengið mjög vel og hafa skipafélögin átt fundi með forsvarsmönnum Hafnasamlagsins þar sem flestir hafa verið mjög ánægðir með móttökurnar á Akureyri. Það á við um aðstöðu og þjónustu á höfninni en einnig afþreyingu og ferðir á og við Akureyri.
Spenningur er svo hjá skipafélögum ásamt öðrum fyrir því að Torfunefsbryggja verði tilbúin með veitingastöðum og verslunum, en einnig rafmagnstengingu fyrir minni skipin sem þar munu liggja.
Óvissa er á skipakomum næstu sumur vegna nýrra skatta og gjalda sem fyrirhuguð eru en við höldum í vonina að þar verði einhver góð lending hjá ráðamönnum. Söluhúsin sem hýst hafa ferðaþjónustuaðila á Tangabryggju í sumar, verða líklega eitthvað notuð hjá Akureyrarbæ um jólin og nýtast því á fleiri stöðum en einungis fyrir ferðalanga skemmtiferðaskipanna.
Áframhald verður svo á framkvæmdum nú þegar mesti straumur ferðamanna er yfirstaðinn. Starfsmenn hafnarinnar hafa því í ýmsu að snúast næstu mánuði."