Akureyri Handboltafélag er úr leik í Eimsbikarkeppni karla í handbolta eftir eins marks tap gegn FH, 22:23, er liðin mættust í Höllinni í dag í 16- liða úrslitum keppninnar. FH hafði frumkvæðið allan leikinn og komst mest 8 mörkum yfir. Það var fyrst og fremst firnasterkur varnarleikur og góð markvarsla hjá Pálmari Péturssyni sem lagði grunninn að sigri FH en Pálmar átti stórleik og varði 23 skot í leiknum, þar af eitt vítakast.
Gestirnir byrjuðu af krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum. Heimamenn skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 12. mínútum leiksins en mikið ráðaleysi var í sókn Akureyrar framan af leik. FH jók forystuna hægt og þétt og hafði sex marka forystu í hálfleik, 16:10.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri og skoruðu fyrstu tvö mörkin og náðu átta marka forystu, 18:10, og útlitið svart fyrir heimamenn. Akureyri var þó langt frá því að játa sig sigraða í leiknum. Með sterkum varnarleik og góðri markvörslu hjá Herði Flóka Ólafssyni tókst heimamönnum að koma sér inn í leikinn á ný og minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 19:21, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Norðanmenn náðu svo að minnka muninn niður í eitt mark, 22:23 þegar rúmlega mínúta var eftir af leiknum. Akureyri fékk svo tækifæri til þess að jafna leikinn á lokasekúndum leiksins en Pálmar Pétursson varði frá Jónatani Þór Magnússyni af löngu færi og tryggði FH sigurinn.
Afar svekkjandi tap fyrir heimamenn sem með hetjulegri baráttu náðu að koma sér inn í leikinn á ný sem virtist vera glataður og voru hársbreidd frá því að tryggja sér jafntefli.
Jónatan Þór Magnússon var markahæstur í liði Akureyrar með 6 mörk, þar af 2 úr víti. Þeir Hörður Fannar Sigþórsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson og Árni Þór Sigtryggsson komu næstir með 3 mörk hver. Í marki heimamanna varði Hörður Flóki Ólafsson 16 skot og Hafþór Einarsson 1 skot.
Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson markahæstur með 7 mörk, og þeir Bjarni Fritzon, Örn Ingi Bjarkarson og Ólafur Guðmundsson komu næstir með 4 mörk hver. Sem fyrr segir átti Pálmar Pétursson stórleik í marki gestanna og varði 23 skot.