Akureyri upp að vegg eftir fjórða tapið í röð

Akureyri tapaði sínum fjórða leik í röð í N1-deild karla í handbolta er liðið lá á heimvelli gegn HK í kvöld. Lokatölur í Höllinni urðu 24:22 fyrir HK. Akureyri er þar með komið upp að hinum margfræga vegg og verður nú að leggja Hauka að velli í lokaumferð deildarinnar á fimmtudaginn kemur til þess að vera öruggt um sæti í úrslitakeppninni. Sveinbjörn Pétursson reyndist sínum gömlu félögum erfiður í kvöld en hann varði 27 skot í leiknum fyrir HK, þar af 19 í fyrri hálfleik. Með sigrinum tryggðu HK- menn sér sæti í úrslitakeppninni.

HK- menn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 5:1 þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum og höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 13:9. Eftir afar dapran fyrri hálfeik byrjuðu norðanmenn seinni hálfleikinn ágætlega og minnkuðu muninn í 11:13. Það var svo átta mínútum fyrir leikslok að Akureyri náði að jafna leikinn í fysta skiptið í leiknum í stöðunni 20:20. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka var staðan 23:22 fyrir HK og heimamenn í sókn. Árni Sigtryggsson átti þá skot í stöngina og HK- menn með pálman i höndunum. Eftir afar langa sókn náðu gestirnir að skora 24 markið þegar um 15 sekúndur voru eftir af leiknum og tveggja marka sigur í höfn.

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar í leiknum með 9 mörk, þar af 4 úr vítum. Árni Þór Sigtryggsson skoraði 5 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason 3 mörk og þeir Guðlaugur Arnarsson og Halldór Logi Árnason komu næstir með 2 mörk hvor. Hörður Flóki Ólafsson átti ágætan leik í marki Akureyrar og varði 16 skot.

Hjá HK var Atli Ævar Ingólfsson markahæstur með 7 mörk, Bjarki Már Gunnarsso skoraði 6 mörk og þeir Bjarki Már Elíasson og Valdimar Fannar Þórsson skoruðu 3 mörk hvor. Sem fyrr segir átti Sveinbjörn Pétursson stórleik í marki HK með 27 skot varin.

Þessi úrslit þýða það að Akureyri og FH munu bítast um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni. Akureyri er með 22 stig í fjórða sæti deildarinnar og mætir Haukum í lokaumferðinni. FH hefur 21 stig og mætir HK í lokaleiknum og því er það enn í höndum norðanmanna að tryggja sig inn í úrslitakeppnina.   

Nýjast