Akureyri leikur til úrslita í Deildarbikarnum

Akureyri Handboltafélag leikur til úrslita gegn Haukum í Deildarbikarkeppni karla í handbolta eftir níu marka sigur á FH í dag, 35:26, er liðin mættust í íþróttahúsinu við Strandgötu. Oddur Gretarsson fór á kostum fyrir lið Akureyrar og skoraði 11 mörk. Akureyri byrjaði leikinn af krafti og náði fimm marka forystu eftir um sjö mínútna leik í stöðunni 1:6 og leiddu með fimm mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 18:13.

Akureyri byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og náði sex marka forystu, 21:15, þegar skammt var liðið á hálfleikinn. Þá komu fimm mörk í röð hjá FH sem minnkuðu muninn í eitt mark 20:21, og leikurinn galopinn. Akureyri tók þá við sér á nýjan leik og tóku öll völdin í leiknum og unnu að lokum öruggan níu marka sigur, 35:26.

Sem fyrr segir var Oddur Gretarsson atkvæðamestur í liði Akureyrar með 11 mörk, þar af eitt úr víti, Jónatan Þór Magnússon skoraði 6 mörk, þar af eitt úr víti, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5 mörk og Andri Snær Stefánsson kom næstur með 4 mörk. Þá varði Hafþór Einarsson 17 skot í marki norðanmanna þar af 2 úr víti.

Hjá FH var Ólafur Gústafsson markahæstur með 8 mörk og Hermann Björnsson skoraði 7 mörk.

 

Það verða því Akureyri og Haukar sem leika til úrslita og mun úrslitaleikurinn fara fram á morgun, mánudag, kl. 18:00 í íþróttahúsinu við Strandgötu.

Nýjast