Akureyri í úrslitakeppnina eftir magnaða endurkomu

Akureyri tryggði sér sæti í úrslitakeppni N1- deildar karla í handbolta með fjögurra marka sigri gegn Haukum á Ásvöllum, 34:30, í lokaumferð deildarinnar kvöld. Það blés þó ekki byrlega fyrir norðanmenn í byrjun leiks. Haukar hvíldu marga lykilmenn í leiknum en það virtist ekki hafa mikil áhrif á leik liðsins því heimamenn náðu mest átta marka forystu í fyrri hálfleik og höfðu sex marka forystu þegar flautað var til leikhlés, 16:10. 

Akureyringar voru þó ekki á því að gefa sætið í úrslitakeppninni upp á bátinn. Norðanmenn komu tvíefldir til leiks í seinni hálfleik og náðu að saxa á forskot Haukanna jafnt og þétt og unnu að lokum fjögurra marka sigur.

Hreint mögnuð endurkoma hjá norðanmönnum og Akureyri er komið í úrslitakeppni N1- deildarinnar í fyrsta skiptið og leikur þar ásamt Haukum, Val og HK.

Árni Þór Sigtryggsson var markahæstur í liði Akureyrar í kvöld með 10 mörk og Jónatan Þór Magnússon kom næstur með 7 mörk. Hjá Haukum var Þórður Rafn Guðmundsson markahæstur með 7 mörk og Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði 5 mörk.

Nýjast