Eyjafjarðarsveit fær um 1,7 milljónir króna, sem er framlag vegna fjölkjarna sveitarfélagsins. Dalvíkurbyggð fær 39 milljónir króna, þar af er framlag vegna íbúaþróunar 23,3 milljónir króna og framlag vegna heildartekna rúmar 11 milljónir króna. Þingeyjarsveit fær um 16,4 milljónir króna, þar af er framlag vegna íbúaþróunar tæpar 12 milljónir króna. Fjallabyggð fær greiddar rúmar 58 milljónir króna og Norðurþing rúmlega 71 milljón króna. Arnarneshreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur fá ekki greitt aukaframlag úr sjóðnum. Ísafjarðarbær er það sveitarfélag sem fær mest greitt af aukaframlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í ár, rúmar 93 milljónir króna.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt endurskoðaða tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutun og uppgjör á 1.000 milljóna króna aukaframlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 2009. Framlaginu er ætlað að bæta rekstrarlega stöðu viðkomandi sveitarfélaga. Við úthlutun framlagsins er tekið mið af íbúaþróun og þróun heildartekna í sveitarfélögum á tilteknu árabili, lágum meðaltekjum og útgjaldaþörf fjölkjarna sveitarfélaga. Aukaframlagið er greitt sveitarfélögum í tvennu lagi. Í október sl. komu 750 milljónir króna til greiðslu. Uppgjörsgreiðsla framlagsins að fjárhæð 250 milljónir króna fer fram fyrir áramót.