Akureyri 145 ára

Í dag eru 145 ár frá því Akureyri fékk kaupstaðarréttindi. Afmælinu var fagnað um síðustu helgi á hinni árlegu Akureyrarvöku með afar góðri þátttöku bæjarbúa í ágætu veðri. Í tilefni dagsins sendir Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyringum afmæliskveðju sína í fáeinum orðum.

Ágætu Akureyringar

Afmæli Akureyrarkaupstaðar er mikill og hátíðlegur merkisdagur fyrir okkur öll. Við hljótum að gleðjast því gangur mála hér í bæ á síðari árum gefur okkur tilefni til mikillar bjartsýni: Bæjarbragurinn allur, blómstrandi menning, stórhugur bæjarbúa og staða atvinnumála, eru til vitnis um það að Akureyrarbær er á réttri leið. Hér vill fólk búa og láta drauma sína rætast. Íbúunum fjölgar jafnt og þétt og fyrr í sumar fögnuðum við sautján þúsundasta bæjarbúanum, myndarlegum dreng sem eru búin hin bestu skilyrði til að vaxa og dafna í höfuðborg hins bjarta norðurs.

Á undanförnum árum hefur með margvíslegum hætti verið lagður grunnur að því að styrkja stöðu bæjarins í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Aðeins á þessu ári höfum við styrkt þennan grunn ennfrekar með stofnun RES Orkuskóla, staðsetningu á höfuðstöðvum Saga Capital hér í bæ og samningum við ítalska fyrirtækið Becromal um aflþynnufyrirtæki sem mun skapa 90 ný störf á Akureyri. Það munar um minna!

Sem skólabær stendur Akureyrarbær styrkum fótum: Í grunnskólum bæjarsins er fullmannað í allar stöður kennara, það er lítill sem enginn biðlisti á leikskólum bæjarins og nýjustu fréttir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri sýna að enn einu sinni hefur nemendafjöldamet verið slegið en tæplega 2.000 manns munu stunda nám við skólann í vetur bæði í dag- og fjarnámi og það sama gildir um MA en umsóknir um nám við skólann hafa aldrei verið fleiri. Akureyrarbær hefur átt gott samstarf við bæði framhaldsskólana og Háskólann um kynningarstarf og er það mikilvægur þáttur í því að styrkja gott starf í skólabænum og bæta ímynd hans.

Mikil uppbygging hefur verið í verslun og þjónustu á síðustu árum og fyrirsjáanlegt er að sú þróun muni halda áfram. Komið hefur berlega í ljós að forsvarsmenn fyrirtækja á þessu sviði hafa mikinn, mér liggur við að segja ódrepandi, áhuga á að taka þátt í uppbyggingu og vexti bæjarins. Það þykir mér gott að vita því það eru einungis eljusemi, jákvæð viðhorf, kraftur, dugnaður og þor bæjarbúa allra sem gera Akureyri að þeim blómlega bæ sem hún er nú þegar orðin og tryggja enn frekari vöxt okkar og hagsæld.

Akureyri er miðstöð þjónustu og verslunar á Norðurlandi. Mannlífið er gott og bærinn státar af gróskumiklu menningarlífi sem ber hróður hans vítt og breitt. Á Akureyri er stutt til allra átta, hér líður fólki vel, hingað flytur sífellt fleira fólk og skapar sér sín eigin tækifæri öllum til góðs. Grunngerð samfélagsins gerir fólki kleift að njóta saman allra lífsins gæða.

Á 145 ára afmæli Akureyrar megum við sem hér búum vera stolt af því hvernig til hefur tekist við að skapa mannlegt og gott samfélag sem er fjölskylduvænt og býr syni sína og dætur vel undir lífið, svo vel að þau vilja helst hvergi annars staðar vera.

En hvað er Akureyri? Akureyri er þú og ég og það sem við gerum saman bænum okkar og íbúunum til heilla.

Til hamingju með daginn, ágætu Akureyringar.

Með bestu kveðju,

Sigrún Björk Jakobsdóttir,
bæjarstjóri á Akureyri

Nýjast