Mikið líf og fjör verður á Akureyrarvöku sem fer fram um dagana 29. til 30. ágúst. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, setur hátíðina formlega á Rökkuró í Lystigarðinum kl. 21 á föstudagskvöldið.
Þar hefst helgin á hátíðlegum nótum og í kjölfarið tekur við fjölbreytt og spennandi dagskrá fyrir alla aldurshópa.
Meðal helstu viðburða má nefna Draugaslóð á Hamarskotstúni, endurkomu víkinganna á MA-túnið, Fuglakabarett í Hofi og að sjálfsögðu stórtónleika í Listagilinu. Þar stíga á stokk engir aðrir en Todmobile, Hjálmar, Birnir, Elín Hall, Strákurinn fákurinn og Skandall.
Þetta er aðeins brot af fjölbreyttri og metnaðarfullri dagskrá Akureyrarvöku 2025. Gestir hátíðarinnar eru hvattir til að kynna sér dagskrána í heild á akureyrarvaka.is.
„Dagskrá Akureyrarvöku verður einstaklega glæsileg með frábærum flytjendum á tónleikunum í Listagilinu auk fjölbreyttra og áhugaverðra viðburða sem verða í gangi um allan bæ yfir helgina,“ segir Jón Haukur Unnarsson, verkefnastjóri sumarhátíða hjá Akureyrarbæ á vefsíðu bæjarins.
Bakhjarlar Akureyrarvöku eru Centrum Hótel, Landsbankinn, Íslandsbanki, Kaldvík, Höldur og Hótel Akureyri.