Nýtt fólk er ávallt velkomið á svellið og er krullufólk boðið og búið að hjálpa og leiðbeina nýliðum. Æfingatímar Krulludeildarinnar í Skautahöllinni á Akureyri eru á mánudögum kl. 20-22 og miðvikudögum kl. 21-23. Upplýsingar og fréttir af Akureyrarmótinu er að finna á vef Krulludeildar Skautafélags Akureyrar, http://www.curling.is/.
Krulla var fyrst leikin á Akureyri 1995 og var Krulludeild Skautafélags Akureyrar stofnuð 1996. Nýlega lést vestur í Washington-ríki í Bandaríkjunum í hárri elli Sophie Wallace, en upp úr 1990 hóf hún söfnunarátak til að gefa hingað búnað og koma íþróttinni af stað á Íslandi. Tilgangurinn var meðal annars að gera Íslendinga að 25. aðildarþjóð WCF, Alþjóða krullusambandinu, og koma krullunni þar með að sem keppnisgrein á Ólympíuleikunum. Krullufólk minnist hennar með þakklæti. Krulludeild SA stendur fyrir ýmsum mótum á veturna og endar keppnistímabilið með alþjóðlega mótinu Ice Cup um mánaðamótin apríl og maí. Krullufólk frá Akureyri hefur reglulega tekið þátt í mótum erlendis, meðal annars heimsmeistaramóti eldri leikmanna. Árið 2007 sendi Ísland í fyrsta skipti lið til þátttöku á Evrópumótinu. Núverandi Íslandsmeistarar munu taka þátt í Evrópumótinu sem fram fer í Aberdeen í Skotlandi 4.-12. desember.