Akureyrarhlaup í sókn – UFA og atNorth gera með sér þriggja ára samstarfssamning

Á myndinni eru þau Rannveig Oddsdóttir frá UFA og frá atNorth: Árni Björnsson og Hjördís Þórhallsdót…
Á myndinni eru þau Rannveig Oddsdóttir frá UFA og frá atNorth: Árni Björnsson og Hjördís Þórhallsdóttir Mynd aðsend

Ungmennafélag Akureyrar (UFA) gerði á dögunum samstarfssamninga við nokkur öflug fyrirtæki vegna Akureyrarhlaupsins. Gerður var samstarfssamningur við atNorth til næstu þriggja ára. Að auki var samið við Altis sem selur meðal annars Mizuno íþróttafatnað og T-plús sem veitir verðlaunafé fyrir brautarmet í Akureyrarhlaupinu líkt og fyrri ár.

Hlaupinu, sem verður haldið í 34. sinn 3.júlí næstkomandi, hefur verið gefið nafnið Akureyrarhlaup Mizuno og atNorth og er markmið hlaupahaldara að efla viðburðinn enn frekar og gera hann að einum af hápunktum hlaupasumarsins á norðurlandi.

Líkt og undanfarin ár er boðið upp á þrjár vegalengdir: 5 km, 10 km og hálfmaraþon. Keppni í hálfmaraþoni er jafnframt Íslandsmeistaramót. Áhugi almennings á hlaupum hefur aukist mjög mikið undanfarin ár og hefur hlaupasamfélagið á Akureyri stækkað verulega að undanförnu.

„Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu við þessi frábæru fyrirtæki. Við viljum leggja áherslu á að efla Akureyrarhlaup sem almenningshlaup og fjölskylduviðburð. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem skipuleggjendur að eiga trausta og framsækna samstarfsaðila sem deila okkar sýn um að byggja upp öflugan og fjölbreyttan viðburð fyrir alla.“ segir Rannveig Oddsdóttir hjá UFA.

Aðstæður til hlaupa á Akureyri eru oftar en ekki mjög góðar. Brautin sem keppt er á er marflöt og afar aðgengileg og að auki er þetta kvöldhlaup í byrjun júlí sem gerir veðuraðstæður oftar en ekki frábærar. Rás- og endamark verður við menningarhúsið Hof og hlaupaleiðin liggur um Eyrina og meðfram pollinum á Akureyri og hentar því mjög vel fyrir bæði byrjendur og lengra komna

atNorth er þekkt tæknifyrirtæki sem rekur gagnaver á Akureyri sem nú gengur til samstarfs við Akureyrarhlaup. „Við í atNorth erum stolt af því að styðja við Akureyrarhlaupið og hlökkum til að taka þátt í þessum skemmtilega og hvetjandi viðburði með starfsfólki okkar og samfélaginu hér á norðurlandi. Okkur finnst afar jákvætt að geta hvatt til hreyfingar og heilsusamlegs lífstíls. Þetta eru gildi sem við viljum standa fyrir. Við ætlum að hvetja okkar starfsfólk til að taka þátt og hvetjum önnur fyrirtæki til þess sama. “ segir Árni Björnsson, hjá atNorth.

Þetta segir í tilkynningu frá UFA

Nýjast