Akureyrarbær kaupir hlut ríkisins í gamla Húsmæðraskólanum

Ráðgert er að þrjár stofnanir sameinast í húsinu.
Ráðgert er að þrjár stofnanir sameinast í húsinu.

Akureyrarbær kaupir 75% eignarhlut ríkisins í gamla Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti en fyrir átti bærinn 25% í húseigninni. Kaupverðið á hlut ríkisins er 45 milljónir króna en húsið er um 950 fermetrar að stærð. Oddur Helgi Halldórssonar formaður stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar segir að skammtímavistun fyrir fatlaða, sem er á þremur stöðum í bænum, verði sameinuð á einum stað í húsnæðinu. Meðal annars er um að ræða skammtímavistunina í Skólastíg og skólavistunina í Árholti við Höfðahlíð. Oddur segir að stefnt sé að því að ráðast í hönnun á breytingum sem fyrst og hefja svo framkvæmdir við þær á næsta ári. Kostnaður við kaup á húsnæðinu og breytingarnar verði hátt í 200 milljónir króna en m.a. þarf að setja upp lyftu í húsinu.

Oddur segir að unnið hafi verið að því að skoða þann möguleika að sameina þessa skammtímavistun fyrir fatlaða og var hugmyndin að ráðast í nýbyggingu. “Nokkur óvissa hefur hins vegar verið um Húsmæðraskólann, eftir að ríkið ákvað að selja sinn hlut, en það hafa allir áhuga á því að vernda húsið. Við skoðuðum húsið, m.a. til að kanna hvort hægt væri að koma þarna fyrir skammtímavistun fyrir fatlaða. Okkur leist nú ekkert allt of vel á það í upphafi en þegar farið var að skoða húsið með fagmönnum, þá kom í ljós að það hentar afskaplega vel.”

Oddur segir að þetta sé mjög gott hús fyrir þessa starfsemi og ekki skemmi staðsetningin fyrir. “Með þessu erum við líka að vernda húsið, sem er eitt af perlum Guðjóns Samúelssonar arkitekts. Þetta er líka hluti af þessari torfu Guðjóns en hann teiknaði m.a. Sundlaugina, Akureyrarkirkju, Laugagötuhúsið, Barnaskóla Íslands og elsta hlutann af Gagnfræðaskólanum,” segir Oddur.

Starfseminni í Skólastíg verður lokað en það hús, sem er stórt einbýlishús, þykir ekki nógu hentugt. Oddur segir að reynt verði að selja húsið. Einnig verður starfseminni í Árholti lokað og því húsi fundið annað hlutverk eða það selt. “Þetta er ekkert ódýrari lausn en að byggja nýtt hús frá grunni en það sem vakti helst fyrir mönnum var að koma þessu virðlega húsi í not, eigna því tilveru, gera á því endurbætur og halda því sinni upprunalegu mynd. Vonandi sparast einhverjar milljónir við þessa lausn og rekstur skammtímavistunarinnar verður allt annar á einum stað,” segir Oddur.

 

Nýjast