Áhyggjur af hættuástandi við gangbrautir yfir Þingvallastræti

Skólanefnd Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að fela formanni og fræðslustjóra að boða til fundar strax á nýju ári með fulltrúum framkvæmdadeildar, lögreglu og Lundarskóla til að leita viðunandi lausna strax á hættuástandi við gangbrautir yfir Þingvallastræti.  

Á fundi skólanefndar var tekið fyrir erindi frá Gunnari Jónssyni aðstoðarskólastjóra Lundarskóla þar sem hann, fyrir hönd skólans, óskaði eftir fundi með bæjaryfirvöldum, lögreglu og vinnueftirliti, vegna hættuástands við gangbrautir yfir Þingvallastræti. Í erindinu eru rakin nokkur dæmi um hættuástand sem skapast hefur við þær gangbrautir yfir Þingvallastræti sem eru vaktaðar af starfsmönnum skólans. Kemur fram að hætta skapist of oft af tillitsleysi ökumanna og hraðakstri. Gunnar mætti á fund skólanefndar og fór yfir helstu þætti málsins, lagði fram sínar hugmyndir og svaraði fyrirspurnum nefndarmanna.


Skólanefnd samþykkti jafnframt að fela fræðslustjóra að skrifa framkvæmdaráði bréf þar sem óskað verði eftir því að fyrirhugaðar breytingar á Þingvallstræti komist sem fyrst á dagskrá.

Nýjast