Ágúst Þór Árnason nýr ræðis- maður Þýskalands á Akureyri

Ágúst Þór Árnason aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, hefur verið skipaður ræðismaður Þýskalands á Akureyri. Sendiherra Þýskalands á Íslandi, dr. Karl-Ulrich Müller, afhenti Ágústi Þór skipunarbréf sitt við hátíðarlega athöfn fyrr í kvöld. Hann tekur við embættinu af Svani Eiríksssyni arkitekt, sem starfaði sem ræðismaður Þýskalands  á Akureyri í tæp 30 ár en lét af því starfi fyrir réttu ári.  

Ágúst Þór tengist Þýsklandi frá því að hann fór þangað til náms og starfa í byrjun árs 1984. Hann bjó í Vestur-Berlín fram til nóvember 1990 og stundaði nám í heimspeki, lögfræði og stjórnmálafræði. Ágúst Þór var fréttaritari Bylgjunnar í Þýskalandi 1986-1989 og RÚV frá 10. nóvember 1989 til nóvember 1990. Eftir að til Íslands kom vann Ágúst Þór við fréttamennsku á RÚV og sinnti m.a. málefnum Þýskalands. Hann hefur haldið miklum tengslum við Þýskaland og tekið viðtöl við flesta framámenn þeirra í stjórnmálum m.a. H. Kohl og Willy Brandt. Ágúst Þór fluttist aftur til Berlínar þegar hann var við doktorsnám í Frankfurt am Main 1998-2000 og hefur verið með í fjölmörgum þýsk-norrænum verkefnum í stjórnskipunarmálum. Hann hefur haldið fjölmörg erindi um Þýskaland og þýsk stjórnmál bæði hér og í Reykjavík og verið leiðsögumaður fyrir Þjóðverja og þýskumælandi á liðnum árum og áratugum.

Nýjast