08. desember, 2007 - 15:02
Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs segir að áfram verði frítt í strætó á Akureyri á næsta ári og frítt fyrir heimamenn í Hrísey í ferjuna. Hann segir að ákvörðunin hafi mælst mjög vel fyrir og að notkunin á strætisvögnunum hafi aukist verulega á þessu ári. "Það er því ljóst að þeir fjármunir sem notaðir eru til að bjóða upp á almenningssamgöngur hér í bænum nýtast mun fleiri bæjarbúum og nýtast betur en áður." "Það má síðan ekki gleyma því að því fleiri sem nota strætó því minni verður umferð einkabíla um götur bæjarins sem skilar sér til samfélagsins alls í formi öruggari umferðar, minni mengunar og minna slits á götum," segir Hermann Jón. Hann segir að þegar ákvörðunin um gjaldfrían strætó var tekin hafi verið áætlað að tekjutapið yrði um 11 milljónir króna miðað við þáverandi notkun auk þess sem niðurgreiðsla ferjugjaldanna kostar 3-4 milljónir. "Ef allir þeir sem notað hafa strætó á þessu ári hefðu greitt fargjöld má því ætla að tekjur af því hefðu verið yfir 20 milljónir króna. Auk þess má segja að ákvörðunin kalli á fjárfestingar í nýjum strætisvögnum vegna meira álags á kerfið."
Eins og komið hefur fram í Vikudegi fjölgaði farþegum hjá SVA um 140% í septembermánuði sl. miðað við sama mánuð í fyrra. Verið var að flytja 1600-1700 farþega á dag, fimm daga vikunnar, í september, eða sem nemur um 10% bæjarbúa. Frítt hefur verið í strætó allt þetta ár og fyrstu 9 mánuði ársins jókst farþegafjöldinn um ríflega 100% miðað við sama tímabil í fyrra.