Afkoma Grýtubakkahrepps betri en búist var við

Ársreikningur Grýtubakkahrepps var afgreiddur á fundi sveitarstjórnar nýverið og var samstæðan gerð upp með tæplega 6 milljón króna hagnaði sem er nokkuð meira en áætlun gerði ráð fyrir. Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri segir að þar komi einkum tvennt til.  Meira fé fékkst úr Jöfnunarsjóði en reiknað var með og lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins lækkuðu í stað þess að hækka eins og gert var ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var um 31 milljón króna en það er sú upphæð sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og afborgana lána ef ekki er gengið á handbært fé eða tekin ný lán.

„Þetta er viðunandi afkoma ekki síst þegar haft er í huga að það er ekki markmið í rekstri sveitarfélaga að skila sem mestum hagnaði heldur að nýta þá fjármuni sem best sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar,“ segir Guðný í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

Nýjast