Á sumrin held ég mikið til í Borgarfirði og fer þá gjarnan í kaupstaðaferð í Borgarnes þegar mig vantar aðföng.
Þar er jafnan mikil umferð ferðamanna sem koma við í Bónus og Nettó í sömu erindagerðum og ég. Ég verð hér að lýsa áhyggjum mínum af heilsufari ökumanna sem draga á eftir sér ferðavagna af öllum stærðum og gerðum, því svo virðist sem þeir gangi ekki heilir til skógar.
Þegar ég tók fyrst eftir þessu ákvað ég að rannsaka málið nánar og lagði á mig að fylgjast náið með þeim. Það sem þeir eiga fyrst og fremst sammerkt er að vera fótafúnir og eiga erfitt með gang. Þessa ályktun dreg ég af því að þeir aka á stóru bílunum sínum, með allt að þriggja herbergja „hús“ í eftirdragi inn á bílastæðin og leggja bókstaflega upp að dyrum. Skiptir þá engu hvort pláss er fyrir þá eða ekki; nei – hér kem ég og ætla að taka fimm til sex stæði takk. Og ástæðan getur ekki annað en verið heilsufarsleg því slíkan yfirgang sýnir ekki venjulegt fólk. Þessir vesalings ræflar þyrftu að fá stæðin merkt sér hið snarasta!
Bílastæði eða huggulegheit?
Rannsókn mín á þessu máli leiddi hugann að sérstöðu Íslendinga þegar kemur að bílum og bílastæðum. Um hríð sinnti ég skipulagsmálum á Akureyri og komst þá að því að hérlendis vill fólk hafa bílastæðin sín í minnst fimm metra fjarlægð frá útidyrunum. Í Skandinavíu var þessu aðeins öðruvísi farið en þar virtist fólki nægja að hafa sameiginleg bílastæði í hæfilegri fjarlægð því þeir vildu frekar nýta lóð næst húsinu í eitthvað meira „huggulegt“. Núna keppast þeir sem skipuleggja Höfuðborgina við að skera bílstæðafjölda niður í helst ekki neitt.
Og hver kannast ekki við umræðuna um bílastæði í miðbæjum. Kaupmenn kvarta undan fáum bílastæðum og bílstjórar háum bílastæðagjöldum. Þetta er svolítið íslenskt því erlendis greiða menn víða gjald fyrir það eitt að aka inn í miðbæi og gera alls ekki ráð fyrir að geta lagt þar.
En aftur að heilsufari ökumanna ferðavagna. Ég held að þetta sé tilvalið rannsóknarefni fyrir heilbrigðisvísindafólk. Er ástæðan líkamleg eða geta þeir einfaldlega ekki séð af kerrunum sínum nema í stutta stund og þurfa að hafa þær á stuttu færi? Hver veit?
Eitt er víst að ef ástæðan er heilsufarsleg þurfum við hin að leggjast á árar með þeim og krefjast þess að stæði næst inngangi verslana verði merkt þeim og sektum beitt, leggi aðrir í þau stæði. Annað væri hróplegt óréttlæti!
Höfundur er áhugamaður um almenna velsæld og hamingju.