Aðstæður voru kjörnar fyrir lendingu á Akureyri

Á sama tíma og flugvél frá Riga í beinu flugi til Akureyrar ákvað að lenda frekar á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku vegna veðurs voru flugvélar að lenda á sama tíma á Akureyrarflugvelli. Þetta segir Guðni Sigurðsson fjölmiðlafulltrúi Isavia í samtali við Vikudag.

Eins og fram kom í frétt blaðsins fyrr í dag þurftu 180 farþegar í beinu flugi frá Riga til Akureyrar að taka rútu frá Keflavíkurflugvelli norður, en fínasta veður var fyrir norðan þennan dag. Flestir farþegana voru frá Akureyri.

„Aðstaða, aðflug og veður var allt með besta móti og t.a.m. gátu aðrar flugvélar lent á Akureyrarflugvelli á sama tíma. Það var því ekkert til fyrirstöðu að lenda hér,“ segir Guðni. Hann bendir á að flugstjórinn hafi alltaf úrslitavaldið. „Hann hefur einhverjahluta vegna metið það svo að lendingarskilyrði væru slæm á Akureyri. En það var alls ekki svo.“

Flugið var á vegum ferðaskrifstofunnar Tranc Atlantic sem krafðist skýringa frá flugfélaginu, Smartlynx, eftir ferðina. Í skýringu flugfélagsins til ferðaskrifstofunnar kemur fram að flugstjórinn hafi metið það svo að vegna óhagstæðs veðurs hafi hann ákveðið að lenda í Keflavík með öryggi farþega í huga.

-þev

Nýjast