Aðstaða í Fangelsinu á Akureyri batnar til mikilla muna

Aðstaða Fangelsisins á Akureyri batnar til mikilla muna innan tíðar en nú standa yfir heilmiklar endurbætur á eldri hluta þess auk þess sem reist hefur verið ný viðbygging. Iðnaðarmenn vinna nú af kappi innandyra en stefnt er að því að opna nýja fangelsið í næsta mánuði. Gestur Davíðsson hefur tekið við stöðu varðstjóra þess. „Þetta verður allt annað líf og betra," segir hann, en fangelsið nýja verður 537 fermetrar að stærð auk yfirbyggðs garðs sem er 152 fermetrar að stærð. Vinnuaðstaða fangavarða verður önnur og betri en var, rýmri og að auki verður ný tækni tekin í notkun sem auðveldar starfið. Alls verða 10 klefar í fangelsinu, 11,5 fermetrar hver og er salerni og sturta inni á hverjum þeirra. Einn hinna nýju klefa er sérhannaður með þarfir fatlaðra í huga, þar getur aðili í hjólastól athafnað sig, en þetta er fyrsti sérhannaði fangaklefinn fyrir fatlaða hér á landi. Góð aðstaða verður til líkamsræktar og verða fangar hvattir til að nýta sér þá aðstöðu að sögn Gests. Þá verður yfirbyggður garður til suðurs, helmingi stærri en sá sem áður var. „Við erum með ýmsar hugmyndir varðandi garðinn, m.a. þá að setja á hann gervigras, en möguleikarnir eru fjölmargir," segir Gestur og á ekki von á öðru en að garðurinn verði vel nýttur. Vinnuherbergi verður einnig í nýjum húsakynnum en að sögn varðstjóra er stefnt að því að í boði verði vinna fyrir fanga. „Við erum að hugsa um ýmislegt í þeim efnum, t.d. pökkunarvinnu af ýmsu tagi." Hann segir að fangavörðum sé ætlað að afla verkefna og vinna við það muni hefjast innan tíðar. „Við höfum augun opin og munum fara á fullt í þessu máli þegar nær dregur opnun." Tilvalið væri fyrir félagasamtök og hópa eða bara hvern sem er að hafa samband ef leysa þarf verk sem ekki krefst mikills útbúnaðar eða tækni. Stefnt er að því að fangar sjái sjálfir um að elda mat að hluta til. Þeim verði áætluð upphæð sem jafngildir matarkostnaði og verði svo unnið út frá því. Þá verður ætlast til að allir taki þátt í matseld og frágangi. „Við förum hægt og rólega af stað og sjáum til hvernig til tekst, auðvitað vonum við að þetta fyrirkomulag gefist vel, þetta er hluti af ákveðinni lífsleikni, að standa sig í stykkinu," segir Gestur.

Í kjallara hússins er sérstakt heimsóknarherbergi þar sem nánustu ættingjar geta komið í heimsókn. Eins er þar kennslustofa en stefnt er að því að bjóða föngum upp á kennslu í framtíðinni. Segir Gestur mikinn vilja standa til þess, en ýmis ljón þó á veginum. Eitt þeirra það að menn komi og fari á mismunandi tímum, og ekki alltaf í samræmi við annir skólanna. Vonandi verður hægt að koma á móts við þá sem hug hafa á að mennta sig. „Ég vona bara að við finnum flöt á málinum þegar fram líða stundir," segir Gestur. Kennsluherbergið segir hann einnig nýtast til námskeiðahalds af ýmsu tagi eða fyrirlestra, og að sjálfsögðu AA funda. „Það má nýta það í eitthvað uppbyggilegt, en um þetta snýst málið, að opna föngum nýja sýn og bæta lífsleikni þeirra." Í kjallara fær fangelsið að auki hluta af bílageymslu lögreglunnar sem örugglega verður hægt að nýta á margvíslegan hátt.

„Við vonum að fangar hafi það mikið að gera yfir daginn að þeir sofni þreyttir að kvöldi. Hingað munu koma fangar sem hafa hug á að bæta líf sitt, menn sem ekki eru í neyslu eða háðir vímuefnum," segir Gestur um þá menn sem afplána munu sína dóma í Fangelsinu á Akureyri. Áður voru fangaverðir við Fangelsið á Akureyri fjórir talsins, en verða 6 eftir breytingar. Auglýst var eftir fangavörðum á dögunum og bárust yfir 30 umsóknir, en Gestur segir áhugann fyrir starfinu mikinn. Sjálfur hefur hann starfað sem fangavörður í 6 ár. Gestur segir að mikil eftirvænting ríki meðal fangavarða nú þegar hillir undir að nýtt og betra fangelsi verði opnað. „Okkar væntingar eru þær að geta komið til móts við þarfir ólíkra einstaklinga og að við berum gæfu til að koma þeim til betri vegar. Þetta er ágætt starf og mjög gefandi þegar maður sé að fólk nær sér á strik og snýr blaðinu við, en að sama skapi fyllist maður vitanlega stundum vonleysi þegar sömu mennirnir koma kannski ár eftir ár," segir Gestur. „En við munum reyna að gera eins vel og við getum, við komum tvíefld til leiks á ný og ætlum að leggja okkur fram um að vinna vel."

Nýjast