Aðstaða batnar til muna með nýju fangelsi

Nýtt fangelsi verður tekið í notkun á Akureyri í marsmánuði næstkomandi. Aðstaða batnar til mikilla muna með tilkomu þess og á það bæði við um fanga og starfsfólk. Gestur Davíðsson hefur verið ráðinn varðstjóri í Fangelsinu á Akureyri, en ráðgert er að fangavörðum fjölgi, þeir verði 6 alls í stað fjögurra áður.

Fangelsið mun rúma 10 fanga og er að sögn Gests gert ráð fyrir að bæði karlar og konur geti vistast þar. Þá er í fangelsinu einn klefi sem miðaður er við þarfir fatlaðra, fólks í hjólastól og er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi.

Fangelsið verður alls 537 fermetrar að stærð auk þess sem fangagarður er 152 fermetrar að stærð.

Vinnuaðstaða verður fyrir hendi og er ætlunin að sögn Gests að fara í það þegar nær dregur að afla verkefna, en margs konar vinna kemur til greina, m.a. við pökkun á varningi af öllu tagi. Þá er kennslustofa í kjallara fangelsisins og er stefnt að því að unnt verði að bjóða upp á kennslu í framtíðinni.

„Við erum bara full tilhlökkunar og spennt að hefja hér starfsemi að nýju, í glæsilegum húsakynnum. Við komum tvíefld til leiks og við munum reyna hvað við getum að gera vel,” segir Gestur.

Nýjast