Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónninn á Akureyri, var einn þeirra sem settur var á meðmælendalista Ástþórs Magnússonar forsetaframbjóðanda að sér forspurðum. Hann hefur kært málið og krefst opinberrar rannsóknar. Í ljós hefur komið að hluti þeirra undirskrifta sem skilað hefur verið vegna framboðs Ástþórs Magnússonar er falsaður. Mörg nöfn voru með sömu rithöndinni og fjörutíu manns sem kjörstjórnir hringdu í og voru á listanum kannast ekki við að hafa skráð sig á listann. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Daníel frétti í fyrrakvöld að hann væri á þessum lista þegar fulltrúi kjörstjórnar hringdi í hann og hafði þá rekið augun í að nafn hans var á tveimur stöðum. Daníel kannaðist ekki við að vera stuðningsmaður framboðsins Ég fór svo í gærmorgun og fékk að skoða undirskrift mína á þessum listum og sá þá að hún var greinilega fölsuð, sem ég vissi. Þannig að ég í framhaldinu kærði þessa fölsun á nafni mínu á þessum meðmælendalista, segir Daníel á vef RÚV.