Það var mikil stemmning í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrr í dag, þegar Hængsmótið, það 30. í röðinni, var formlega sett. Það var Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri sem setti Hængsmótið, sem er opið íþróttamót fyrir fatlaða. Á Hængsmótinu eru allir sigurvegarar. Alls taka um 230 keppendur frá 14 félögum þátt í mótinu, sem er svipaður fjöldi og síðustu ár. Við mótssetninguna gengu liðsmenn félaganna fylktu liði inn á gólf Íþróttahallarnir. Í framhaldinu voru ljósin í salnum slökkt og til leiks mætti ljónið Hængur, sem heilsaði upp á keppendur og fylgdi ljóninu eltiljós. Að lokinni mótssetningu hófst keppni í borðtennis og einstaklingskeppni í boccía. Keppni verður fram haldið á morgun en einnig verður keppt á mánudag. Á mánudagskvöld verður svo haldið veglegt lokahóf í Höllinni, þar sem einnig fer fram verðlaunaafhending. Það er Lionsklúbburinn Hængur sem stendur fyrir mótinu sem fyrr og er þetta jafnframt stærsta verkefni þeirra Hængsfélaga ár hvert. Heiðursgestur mótsins að þessu sinni er forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson en hann er væntanlegur norður á mánudag.