03. september, 2015 - 09:20
Anna Richardsdóttir
A! Gjörningahátíð verður haldin í fyrsta sinn dagana 3. - 6. september og er stefnt að því að hún verði að árlegum viðburði. Á dagskrá eru 14 fjölbreyttir gjörningar auk off venue viðburða og vídeólistahátíðarinnar heim. A! Gjörningahátíð er lokahnykkurinn á Listasumri á Akureyri sem var endurvakið í byrjun júní, eftir nokkurra ára hlé, með yfir 200 viðburðum á dagskránni.
Fjölbreyttir gjörningar myndlistarmanna og sviðslistafólks er á dagskrá A! Meðal þeirra sem fram koma eru Magnús Pálsson, Anna Richardsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir, Snorri Ásmundsson, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir, Freyja Reynisdóttir & Brák Jónsdóttir, Örn Ingi Gíslason, Hekla Björt Helgadóttir, Choreography Rvk og Kriðpleir.
A! fer fram víðsvegar um Akureyri og teygir anga sína til Hjalteyrar. Meðal annars verða settir upp gjörningar í kirkjutröppunum, endurvinnsluskemmu Gúmmívinnslunnar, Verksmiðjunni á Hjalteyri og nokkrir gjörningar verða í Menningarhúsinu Hofi og í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Ókeypis verður á alla viðburði A!
Dagskráin hefst með pompi og prakt kl. 17 á morgun, fimmtudaginn 3. september, í Hamragili í Hofi með framlagi Leikfélags Akureyrar og Hofs, Drengurinn með tárið, en sá gjörningur verður fluttur í þremur hlutum og fara seinni tveir fram föstudag og laugardag. Hvern gjörninginn mun reka annan og lokahnykkurinn verður á laugardagskvöldið í Réttarhvammi og á Hjalteyri þar sem Anna Richardsdóttir fremur meðal annars gjörninginn Hjartað slær, endurvinnsla á konu og Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna Salt Vatn Skæri. Boðið verður upp á rútuferð frá Hótel Kea kl. 21.45 sem kemur við í Réttarhvammi og ekur síðan til Hjalteyrar. Haldið verður aftur til Akureyrar á miðnætti.
Opið hús verður í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi kl. 11 sunnudaginn 6. september þar sem boðið verður til umræðna og morgunverðar. Þar munu allir listamennirnir koma saman og ræða gjörningana. Allir boðnir velkomnir.
Að hátíðinni standa Listasafnið á Akureyri, Leiklistarhátíðin LÓKAL, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar með stuðningi frá Myndlistarsjóði.
Allar nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Listasafnsins á Akureyri, listak.is, og á Facebooksíðu A!