40 verkefni hjá björgunarsveitinni á Húsavík í nótt

Garðarsmenn á bryggjunni í nótt þar sem gámur fór af stað. Mynd: Guðbergur Rafn Ægisson.
Garðarsmenn á bryggjunni í nótt þar sem gámur fór af stað. Mynd: Guðbergur Rafn Ægisson.

Björgunarsveitin Garðar á Húsavík sinnti um 40 verkefnum af ýmsum toga í gærkvöldi og  nótt, en ekkert þeirra var alvarlegt eða stórvægilegt. Alltof mikið var um fjúkandi ruslatunnur í bænum, að mati Guðbergs Rafns Ægissonar, félaga í Garðari, þar sem „þetta veður skall nú ekkert óvænt á.“

Einnig fóru gámar af stað, gluggar fuku upp, rúður brotnuðu í húsum og tré kubbuðust sundur. Garðhýsi var við það að fjúka og þurfti að tjóðra það niður. Og ýmislegt fleira smálegt rataði inn á verkefnalista Garðarsmanna.

„Mesti hvellurinn á Húsavík gekk yfir milli 23.30 til 03.30. Eftir það gátu menn sest niður í kaffipásu, en ég náði samt að smella af nokkrum myndum frá verkefnum næturinnar.“ Ritar Guðbergur Rafn, sem er ötull myndasmiður og myndavélin gjarnan með í för í útköllum. JS

 

Nýjast