3+30+300 reglan í undirbúningi á Akureyri

Reglan góða virðist vera i hávegum höfð á þessu svæði í bænum.   Mynd akureyri.is
Reglan góða virðist vera i hávegum höfð á þessu svæði í bænum. Mynd akureyri.is

Á heimasíðu Akureyrar, akureyri.is má lesa að bærinn stefnir að því að útfæra svokallaða 3+30+300 meginreglu þegar kemur að skipulagi og þéttingu byggðar. Unnið er að undirbúningi með því að kortleggja stöðuna á Akureyri í dag.

Þumalputtareglan 3+30+300 á að styðja við líffjölbreytileika og stuðla að bættri heilsu íbúa. Samkvæmt reglunni ættu allir að geta séð að minnsta kosti þrjú stór tré frá heimili sínu, vinnustað eða skóla. Að auki ætti laufþekja innan hverfis að ná a.m.k. 30 prósentum, og hvergi ætti að vera lengra fyrir íbúa en 300 metrar í næsta græna svæði.

Innleiðing reglunnar á Norðurlöndum er hluti af norrænu samstarfsverkefni um náttúrumiðaðar lausnir í borgum og sveitarfélögum. Í löndum eins og Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, þar sem innlendar trjátegundir eru fáar og loftslag krefjandi, felst áskorun í að finna raunhæfa nálgun við aðlögun reglunnar. Þar getur áhersla á annan innlendan gróður og fjölbreyttar grænar lausnir nýst til að ná markmiðunum.

Með því að leggja áherslu á innlendar tegundir, fjölbreyttan gróður og vel hönnuð opin svæði stuðlar Akureyrarbær að grænni, heilsusamlegri og vistvænni byggð til framtíðar.

Nýjast