32 milljónir umfram áætlun

Fyrir fundi íþróttaráðs Akureyrarbæjar í gær lá greinargerð frá Verkfræðistofu Norðurlands um verktakakostnað vegna uppsetningar snjóframleiðslukerfis í Hlíðarfjalli. Einnig lá fyrir fundinum kostnaðaryfirlit vegna búnaðarkaupa fyrir sama verkefni frá Guðmundi K. Jónssyni forstöðumanni Hlíðarfjalls. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemur heildarkostnaður vegna verkefnisins kr. 138.085.440, en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 105.945.496. Í fundargerð íþróttaráðs segir síðan: „Íþróttaráð hefur fengið viðhlítandi skýringar á verulegum kostnaði umfram áætlanir við framkvæmdir við uppsetningu snjóframleiðslukerfis í Hlíðarfjalli á tímanum maí 2005 til febrúar á þessu ári. Áætlunin hljóðaði upp á kr. 105.945.496, en fór fram úr þeirri tölu um alls kr. 32.139.944. Viðlíka verk hefur ekki verið unnið áður hérlendis og því um nokkurs konar frumherjaverk að ræða, auk þess sem ýmsar erfiðar aðstæður gerðu alla framkvæmdina erfiðari en gert var ráð fyrir.
Íþróttaráð óskar eftir því við stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands að hún fjármagni áfallinn viðbótarkostnað og þannig verkefnið í heild sinni. Íþróttaráð telur að snjóframleiðslukerfið hafi sannað gildi sitt á liðnum vetri og skapi mikil tækifæri í vetraríþróttum á landinu á komandi árum."

Nýjast