Þegar ég var blaðamaður á Degi á Akureyri, hafði ég m.a. þann starfa í ein tvö ár að sjá um Stjörnuspá blaðsins. Og þurfti því daglega að semja 12 spádóma, einn fyrir hvert stjörnumerki, 4-5 daga vikunnar, þannig að spádómarnir hafa verið þetta 3-4000 talsins þegar yfir lauk. Og voru að sjálfsögðu ekkert vitlausari og hittu ekkert síður í mark en spádómar frægustu stjörnuspámanna heimsins. Hér eru fáein sýnishorn:
-Láttu ekki vanhugsaðar skyndiákvarðanir koma þér í koll. Þú kaupir ekki heilt hótel þó þig vanti gistingu í eina nótt.
-Hleyptu engum inn undir lopapeysuna. Þar er fólk nefnilega komið í skotfæri við hjartað.
-Tækifærissinninn ruglar aldrei saman skynfærum og kynfærum.
-Slíðraður pennann og reyndu að draga til stafs með sverðinu. Ofbeldi er allt sem þarf.
-Illt er að setjast snakillur að snæðingi. Og hart er að vera nakinn úti í næðingi.
-Betra er að vera ólympíumeistari á eigin heimili, en síðastur í sínum riðli í Sydney.
-Þú vaknar með andfælum við fótatak fílanna í forstofunni. Fjárfestu í þrengri útidyrum.
-Skelltu þér á héraðsmót í frjálsum. Þar falla horskir bændur aldrei á lyfjaprófum, en fella æfinlega byrjunarhæðina í hástökki með reisn.
-Reyndu að brjótast út úr möppudýragarðinum. Rotaðu verðina með skjalatöskunni.
-Það er átakaminna að vera lauf í logni en fjöður í fjúki. Veldu þér hlutverk við hæfi.
-Hundasúran er sæt í sumra munni.
-Þú dettur í lukkupottinn og fótbrotnar – enda fallið hátt frá barmi og ofan í botn.
-Svefnleysið lagast ekki með rófulausum hjásvefni.
-Skárra er að vera skálkur í skjóli en öðlingur í úrhelli.
-Lífið leikur við þig, en leikur þú við lífið? Leiktu á lífið. JS