Maðurinn sem lést í umferðarslysi við Einarsstaði skammt frá Akureyri í gær þegar flutningabíll og fólksbíll skullu saman var 18 ára. Lögreglan á Norðurlandi eystra segir rannsókn málsins á frumstigi og nánari upplýsingar ekki veittar að svo stöddu. Loka þurfti þjóðvegi 1 í þó nokkuð langan tíma vegna slyssins. Mjög mikil umferð var um þjóðveginn á þessum tíma og í fyrstu ekki mögulegt að hleypa umferð framhjá vettvanginum.
Á Facebook síður lögreglunnar segir að lögreglumenn sem að komu fyrstir á vettvang og voru meðal annars í umferðarstjórn, langar að þakka fólki fyrir þá biðlund og kurteisi sem það sýndi á meðan á lokun stóð. Viðmót ökumanna og þolinmæði hafi verið til fyrirmyndar þrátt fyrir langa bið og mikinn fjölda bifreiða. Þetta hafi auðveldað vinnuna á þessum mjög erfiða vettvangi.
Maðurinn sem lést var einn í bílnum en þrír voru í flutningabílnum og voru þeir flutti til aðhlynningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri en slösuðust ekki alvarlega.