Um 1.200 manns lögðu leið sína í Hlíðarfjall í sumar og var fjöldi gesta framar björtustu vonum að sögn Guðmundar Karls Jónssonar
forstöðumanns í Hlíðarfjalli. Sumaropnun var í Hlíðarfjalli í fyrsta sinn í ár þar sem stólalyftan var opin föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá 6. júlí til 26. ágúst. Lyftan var í gangi frá kl. 10 til 17 þessa daga.
„Við renndum frekar blint í sjóinn með þetta og vissum ekki hvort það kæmu 10 eða 100 manns. Þannig að við erum afar sátt með hvernig til tókst,“ segir Guðmundur Karl. Hann segir bæði heimamenn og ferðafólk hafa lagt leið sína í fjallið.
„Það var selt langmest af stökum ferðum með lyftunni eða 700 ferðir. Stundum fór fólk aftur niður með lyftunni eftir göngutúr en aðrir fóru aðra leið niður. Einnig keypti margt hjólafólk sér dagspassa og hjóluðu um svæðið.“ Guðmundur Karl segir að sumaropnunin sé komin til að vera. „Það er engin spurning enda mikil ánægja með hvernig til tókst og greinilega eftirspurn eftir þessari þjónustu.“