Vildi leggja sitt af mörkum

Díana Björk Friðriksdóttir.
Díana Björk Friðriksdóttir.

Díana Björk Friðriksdóttir er fædd og uppalin á Dalvík. Hún vinnur á leikskólanum Krílakoti og er að læra leikskólakennarann við Háskólann á Akureyri. Díana fór í skiptinám á vegum AFS til Noregs árið 2016-2017. Eftir heimkomu úr skiptináminu ákvað hún fljótt að flytja sjálf aftur til Noregs og klára menntaskólann með norskum vinum sínum. Í dag situr hún í stjórn skiptinemasamtakanna AFS og er formaður Norðurlandsdeildarinnar.

Díana segir AFS hafa gefið sér margt en fyrst og fremst gleði, ánægju og tækifæri. Hún segir að upplifun sín á skiptináminu hafi verið mjög góð vegna þess hve oft skiptinemarnir á svæðinu hittust. „Ég hugsaði með mér að mig langaði að gera starfið svona heima á Íslandi. Mig langar að krakkar sem koma til Íslands og þá sérstaklega hingað norður, fái að hittast reglulega og gera eitthvað saman.“

Jólahefðir

Díana fer á jólatónleika á ári hverju og finnst skrítið ef útaf bregður. Þá hefur fjölskyldan líka haldið í þá hefð að hittast og skera í laufabrauð og steikja það saman. Auk þess er hún dugleg að baka smákökur og skreyta. Díana segir jólin úti hafa verið mjög svipuð og hér, jólatréð var skreytt, jólaljósin sett upp, gengið í kringum jólatréð og litlujólin haldin í skólanum.  „Maður býst einhvern veginn alltaf við því að það sem maður gerir sjálfur sé gert annars staðar,“ Segir Díana. Hún komst fljótt að því að margar hefðir eru ekki eins þar og hér.

Snemmbúin jól
Jólamaturinn í Noregi kom Díönu á óvart. Þar er hefð fyrir því að borða Lutefisk eða lútfisk á jólunum. Lútfiskur er gerður úr harðfiski sem er vatnsmettaður og lagður í lút og segir Díana það vera herramannsmat á jólunum. Þá segir hún það hafa verið skrítið að jólin voru hringd inn klukkan 4. „Ég hélt það væri tímamismunurinn en áttaði mig svo á því að það passar ekki.“ Það kom Díönu einnig á óvart hversu lítið var skotið upp á áramótunum og man hún eftir að hafa hugsað að Norðmenn væru að missa af miklu. Þá nefnir hún líka að í stað áramótaskaups sé það mikil hefð að horfa á bíómyndina Tre notter til Akepott ár hvert.

Tilfinningarússíbani
„Besta ráðið sem ég get gefið skiptinemum er að tala við fósturfjölskylduna og segja henni hvernig jólin eru heima og spyrja sömuleiðis hvernig allt er hjá þeim, áður en hátíðin gengur í garð.“

Hún segir skiptinema þurfa að vera með opinn huga því þessi tími geti verið erfiður. Díana telur jafnframt að AFS á Íslandi undirbúi skiptinemana vel undir tilfinningarússíbanann sem fylgt getur jólahátíðinni.
Díana segist hafa stytt sér stundir í kringum jólahátíðina með því að fá sendingar heiman frá með hráefnum í lakkrístoppa. Með því hafi hún getað komið með sitt líf líka inn í líf heimamanna.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikublaðsins sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við HA.


Nýjast