„Við lofum gleði og almennum fíflalátum“

Halli, Gói og Jón Ólafsson ætla að taka Akureyri með trompi laugardaginn 3. september n.k. Sögur, sprell og söngur. Þeir flytja uppáhaldslögin sín úr leikhúsinu og segja sögur, sannar og aðeins minna sannar. Fjölskylduútgáfan verður í samkomuhúsinu kl. 14 og fullorðinsútgáfan verður á Græna hattinum kl. 21.

Guðjón Davíð Karlsson eða Gói segir að það sé virkilega gaman að koma með þessa skemmtilegu sýningu norður á Akureyri. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem þeir félagarnir hafa verið með dagskrá af þessu tagi á Akureyri.

„Við Halli bjuggum á Akureyri. Ég flutti norður strax eftir útskrift úr leiklistarskólanum 2005 og bjó fyrir norðan í þrjú ár. Halli kom svo eftir að hann útskrifaðist og það fyrsta sem við lékum saman voru Óvitar og Jón Ólafs samdi tónlistina í þeirri sýningu. Þannig að við eigum sterka tengingu norður,“ segir Gói og bætir við að þeir Halli hafi stofnað Leikhúsbandið þegar þeir bjuggu á Akureyri. Þá hafi þeir spilað mikið saman og komið fram víða. „Svo höfum við haldið tónleika annað slagið. Það var svo í fyrra að við fengum Jón með okkur og komum fram í Salnum í Kópavogi og það vakti svona líka rífandi lukku þannig að úr varð að við fórum að finna dagsetningar til að endurtaka leikinn.“

Það er óhætt að mæla með þessari sýningu þar sem þetta kostulega þríeyki kemur til með að syngja og leika öll sín uppáhalds lög. „Já, þetta eru lög sem við höfum sungið í söngleikjum og fleiri sem okkur langar alveg rosalega til að syngja. Það eru engar reglur nema bara að það á að vera gaman. Svo bullum við og sprellum. Þannig að við lofum dúndrandi skemmtun,“ segir Gói.

Gói segir að upphaflega hafi bara staðið til að troða upp á Græna hattinum fyrir fullorðna fólkið en við nánari tilhugsun fannst þeim það ekki nóg.

„Við vorum búnir að finna dagsetningu á Græna hattinum og okkur langaði að gera eitthvað fyrir krakkana líka. Við erum allir ástfangnir af Samkomuhúsinu. Flottasta leikhús á Íslandi þannig að við fengum þá hugmynd að gera „barnvænaútgáfu“ af prógramminu okkar. Syngja lög úr barna og fjölskylduleikritum og segja sögur og fíflast. Við erum ótrúlega spenntir að stíga aftur á svið samkomuhússins. Það verður dásamlegt alveg,“ útskýrir Gói.

Miða fyrir fjölskyldusýninguna er hægt að panta á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar. Miðar á fullorðins sýninguna á Græna hattinum er hægt að nálgast á heimasíðu staðarins

„Það er svo auðvelt að nálgast miða að það er rugl að láta eitthvað stoppa sig. Við lofum gleði og almennum fíflalátum og hlökkum alveg svakalega til að koma norður og sjá sem allra flesta,“ segir Gói að lokum.


Athugasemdir

Nýjast