Þágufallssýkin skilaði Mars titlinum Ungskáld Akureyrar

Verðlaunahafarnir. Frá vinstri: Selma Dís Hauksdóttir, Mars Baldurs og Guðrún María Aðalsteinsdóttir…
Verðlaunahafarnir. Frá vinstri: Selma Dís Hauksdóttir, Mars Baldurs og Guðrún María Aðalsteinsdóttir. Mynd/Akureyri.is

Úrslit í ritlistakeppni Ungskálda 2022 voru kunngjörð á Amtsbókasafninu í vikunni. Fyrstu verðlaun hlaut Mars Baldurs fyrir verkið Þágufallssýki. Greint er frá þessu á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Alls bárust 57 verk í keppnina frá 27 þátttakendum. Úrslit voru sem hér segir:

  • 1. sæti: Mars Baldurs fyrir verkið Þágufallssýki
  • 2. sæti: Selma Dís Hauksdóttir fyrir verkið Tilfinningar og meiri tilfinningar
  • 3. sæti: Guðrún María Aðalsteinsdóttir fyrir verkið Mávur verður vitni að maraþoni!

Í dómnefnd sátu Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og skáld, og Svavar Knútur Kristinsson, tónlistarmaður og textahöfundur. Tónlistaratriði við verðlaunaafhendinguna fluttu þau Júlíana Valborg Þórhallsdóttir og Dagur Nói Sigurðsson.

Verkefnið Ungskáld hefur verið við lýði í 9 ár og að þessu sinni hófst það með ritlistasmiðju í VMA 15. október þar sem Gunnar Helgason og Kamilla Einarsdóttir fræddu ungmennin 19 sem mættu um töfra ritlistarinnar.

Í byrjun nóvember fór í loftið hlaðvarpsþáttur í umsjá Önnu Kristjönu Helgadóttur sem var Ungskáld Akureyrar árið 2018 en þar fjallar hún um skáldskapinn og kynni sín af Ungskáldaverkefninu. Þáttinn má nálgast hér.

Ritlistakvöld var haldið á kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum þriðjudagskvöldið 6. desember. Mæting var afar góð. Fleiri en 30 gestir komu saman til að spjalla um ritlist, lesa upp eigin verk og hlusta á aðra lesa. Kormákur Rögnvaldsson var kynnir og Þröstur Ingvarsson flutti tónlistaratriði.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Verkefnið hófst árið 2013 og er það eina sinnar tegundar á landinu. Staðið er fyrir ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku og eigið frumsamið hugverk. Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.


Athugasemdir

Nýjast