„Spennandi að sjá nýsköpunar- og þróunarvinnu verða að veruleika“

Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja á skrifstofu sinni á Dalvík / myndir samherji.is
Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja á skrifstofu sinni á Dalvík / myndir samherji.is

Íslenskur sjávarútvegur hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, samhliða stöðugri þróun og innleiðingu tæknilausna á sviði vél- og rafeindabúnaðar.

Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja segir að innan félagsins sé rík áhersla lögð á að þróa og endurbæta búnað, enda markmiðið að vera leiðandi í framleiðslu hágæðaafurða á heimsvísu. Hann segir að mikil og dýrmæt þekking á þessu sviði hafi verið byggð upp hjá Samherja, sem hafi skapað möguleika á að hanna og framleiða sértækar tæknilausnir, oft á tíðum í samvinnu við tækni- og iðnfyrirtæki.

Andrúmsloft frumkvöðla

„Við byggingu og hönnun vinnsluhússins á Dalvík var farin sú leið að vinna náið með tækni- og hátæknifyrirtækjum og þar með varð til heilmikil þekking og reynsla innan okkar raða. Hérna starfar fólk með víðtæka menntun og reynslu í skapandi andrúmslofti frumkvöðla og saman höfum við þróað margvíslegar lausnir sem gera vinnslurnar öflugri í samkeppnisumhverfi. Við gætum vissulega farið þá leið að kaupa svo að segja alla þjónustu en þá er hún ef til vill ekki unnin af aðilum með næga innsýn í starfsemina. Það er í raun frábær staða fyrir mig sem tæknistjóra að vinna með starfsfólki með þessa miklu reynslu og þekkingu innan félagsins.”

Jón Ingi Ólason yfirmaður viðhalds á Dalvík undirbýr að prenta í þrívíddarprentara

 

Hröð þróun í þrívíddarprentun

Atli nefnir sem dæmi um verkefni, forritun iðnaðartölva, forritun róbóta, notkun þrívíddarprentara og gerð sérhæfðra teikninga í þrívídd.  „ Samherji er með þrívíddarprentara bæði á Dalvík og Akureyri sem prenta út hluti í mismunandi tegundum plasts. Í raun má segja að prentararnir séu í gangi allan sólarhringinn, þessi tæki prenta út alls konar hluti sem oft á tíðum fást ekki frá framleiðendum með skömmum fyrirvara. Í flestum tilvikum teiknum við sjálf viðkomandi hlut sem prentaður er út á staðnum. Þróunin í þrívíddarprenturum er hröð og notkunin á örugglega eftir að aukast enn frekar. Í raun er hægt að prenta út hvað sem er í þessum tækjum en búnaðurinn kallar líka á sérhæfða þekkingu, sem góðu heilli er til staðar hjá okkur.”

Vinnslulína sem hönnuð var af starfsfólki Samherja

„ Við erum þessar vikurnar að taka í notkun vélasamstæðu sem setur fiskmarning í öskjur, sem síðan eru frystar. Þessi búnaður var hannaður að mestu leyti af starfsfólki Samherja og er eftir því sem ég best veit sá eini sinnar tegundar í fiskvinnslu.

Þá er sömuleiðis nýbúið að taka í notkun róbóta sem raðar frauðplastkössum á vinnslulínuna. Þessi tækni var ‏unnin í samvinnu við fyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfvirknilausnum.“

Nýja vélasamstæðan á Dalvík sem vinnur fiskmarning

 

Gaman að sjá hugmyndir verða að veruleika

„ Félagið alltaf með nokkur verkefni í gangi á sviði nýsköpunar og það er spennandi að sjá hugmynda- og þróunarvinnu verða að veruleika. Hjá Samherja starfar þéttur og góður hópur sem staðráðinn er í að vera áfram í fremstu röð.

Hér eru allir áhugasamir og leggja mikið á sig til að ná settum markmiðum. Stundum er sagt að Samherji sé öflugt nýsköpunarfyrirtæki og ég tek undir það,” segir Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja.

Búnaður sem sér um að setja plastfilmu yfir fiskinn var hannaður hjá Samherja

 

 

Róbótinn sem raðar kössum á færibönd

 

 Það er heimasíða Samherja sem fyrst segir frá

Nýjast