„Ótrúlega magnað að finna stuðning úr öllum áttum“

Starf björgunarsveitanna er afar gefandi að sögn feðginana Júlíusar og Júlíu Sigrúnar.
Starf björgunarsveitanna er afar gefandi að sögn feðginana Júlíusar og Júlíu Sigrúnar.

Ein af stærstu fjáröflunum björgunarsveitanna fór  fram dagana 2. - 5. Nóvember þegar sjálfboðaliðar á vegum björgunarsveitanna seldu neyðarkallinn. Í ár er Neyðarkallinn aðgerðastjórnandi og er reyndar kona.

Salan hófst á fimmtudaginn í síðustu viku en Björgunarsveitin Garðar stóð vaktina á Húsavík við Nettó og Krambúðina. Mæðgurnar Júlía Sigrún Júlíusdóttir og Sigrún Ólöf Karlsdóttir vorum meðal þeirra sem stóðu vaktina og með þeim var meira að segja Karítas Marý, dóttir Júlíu.

„Jú ég var með mömmu að selja um daginn og það gekk alveg rosalega vel. Þetta er ein af okkar helstu fjáröflunarleiðum. Þetta og dósasöfnunin og svo njótum við góðs af flugeldasöfnun Kiwanis,“ segir Júlía en þær eru ekki þær einu í fjölskyldunni sem hafa komið að starfi Björgunarsveitarinnar Garðars.

Fjölskylduáhugamál

Mærðgur

Mæðgurnar Júlía Sigrún, Rakel og Sigrún mamma þeirra í björgunarsveitargöllunum.

„Nei ég  er ekki ein. Maðurinn minn er í þessu, mamma og pabbi, systir mín og bróðir. Ég er reyndar ekki eins virk lengur eins og ég var, er með tvö lítil börn og hund,“ segir Júlía en hún byrjaði í björgunarsveitinni árið 2013 í unglingadeildinni.

„Ég hef aðallega verið í því að græja nesti og svona. Sjá til þess að það sé næg næring til staðar þegar það eru stór útköll. Það er mjög fjölbreyttur hópur í þessu og það þurfa ekki allir að vera góðir í öllu,“ segir hún og mælir með að taka þátt í starfi björgunarsveitarinnar.

Júlíus Stefánsson, faðir Sigrúnar sagðist stoltur af dótturinni sem lagði sitt af mörkum um helgina.

„Þótt  hún eigi tvö lítil börn og hund, þá var hún samt á fullu að selja neyðarkonuna á dögunum,“ segir hann og bætir við að Rakel, önnur dóttir hans hafi verið mikið í björgunarsveitinni líka en hafi aðeins dregið sig í hlé núna, enda ófrísk. „Svo er Eyþór náttúrlega byrjaður í þessu á fullu líka,“ segir Júlíus og á þar við son sinn.

 Verið í björgunarsveit frá unglingsaldri

Sjálfur hefur Júlíus verið viðloðandi björgunarsveitirnar í fjöldamörg ár. „Ég var í þessu björgunarsveitarstarfi þegar ég bjó í Hrísey og tók þátt í ungingastarfinu á Dalvík. Svo kem ég hingað til Húsavíkur og  það leið ekki á löngu þar til ég var kominn inn í Björgunarsveitina Garðar. það var eiginlega þannig að Eysteinn [Heiðar Kristjánsson] sem ég var að vinna með fór að hvetja mig til að mæta en hann hafði þá verði virkur í nokkurn tíma. Það leið ekki á löngu áður en hann var búinn að munstra mig inn í Björgunarsveitina Garðar. Ég var mjög fljótt „all in“ í þessu og var meira að segja formaður í mörg ár,“ segir Júlíus og bætir við að fjölskyldan hafi svo fylgt honum að miklu leiti.

Fékk fljótt aðstoð frá dótturinni

Tasfla

Júlíus hefur verið virkur í Björgunarsveitinni Garðari í mörg ár. Hér ásamt félögum sínum að taka við einni af þeim fjölmörgu gjöfum sem Garðari hafa borist. Frá vinstri: Guðmundur Vilhjálmsson, Birgir Mikaelsson, Ástþór Stefánsson og Júlíus Stefánsson. Mynd/ epe

„Já, það vildi verða svo. Meira að segja þegar ég var formaður, af því ég er ekki mikill tölvugúru þá notaði ég Júlíu alveg eins og ég gat enda er hún miklu betri í því að vinna með tölvur. Við unnum þetta soldið mikið saman og Júlía var mjög dugleg að vera með mér í þessu. Ef það þurfti að setja eitthvað upp í Excel þá var hún mætt. Þetta þróaðist einhvern vegin svoleiðis,“ útskýrir Júlíus.

„Svo var konan mín [Sigrún] komin á fullt með mér í þetta áður en maður vissi af. Hún hefur ekki verið að fara á vettvang en alltaf að hjálpa til eitthvað í húsi þegar voru stór útköll og svona. Það þarf að vera fólk úti um allt í þessu, ekki bara í aðgerðunum sjálfum,“ segir hann.

Björgunarsveitar bakterían

Mjög margt af því fólki sem er í björgunarsveitunum, það er gjarna mjög lengi í þessu. Þetta virðist vera hálfgerð baktería sem fólk losnar ekki svo glatt við. Er eitthvað til í því?

„Félagsskapurinn, það er eitthvað við hann. Það verður svo sérstakur mórall í þessu sem maður tímir ekki að sleppa. Jafnvel þó maður reyni að draga sig aðeins í hlé, þá er maður samt alltaf að gefa sig í þetta. Maður er í dósunum og að ditta að bílunum og sjá um þetta og hitt. Þegar upp er staðið þá er maður þrátt fyrir allt í hellings starfi við þetta þó manni finnist það ekki vera mikið,“ segir Júlíus léttur í bragði og bætir við að þegar útköllin komi þá viti hann hvers vegna hann sé í þessu.

„Ástæðan held ég að sé sú að þegar maður byrjar í þessu og er búinn að fara í nokkur útköll, þá áttar maður sig á hvað þetta er gefandi. Maður er kannski búinn að sækja rjúpnaskyttu eða fólk sem er búið að dúsa fast í bíl uppi á heiði klukkustundum saman, þá sér maður hvað þetta er gaman. Svo ég tali nú ekki um ef maður er í alvarlegri útköllum eins og sjóbjörgun sem ég er í,- þetta gefur svo svakalega mikið. Það er bara þannig.“

Þakklátur samfélaginu

Júlíus tekur undir með dóttur sinni með að salan á Neyðarkonunni hafi gengið vonum framar. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel, í raun komið mun meira í kassann en fjöldi seldra neyðarkvenna segir til um. Svo hefur verið fín sala á stóra kallinum núna.“  Ár hvert kemur stærri útgáfa af neyðarkallinum sem seld er til fyrirtækja og velunnara. Félagar úr Björgunarsveitinni Garðari hafa verið á ferð um bæinn og heimsótt nokkur fyrirtæki og boðið þeim að kaupa stóra neyðarkallinn.  „Við höfum ekki verið svakalega dugleg við að selja hann undan farin ár. Þetta er svo lítið samfélag, okkur finnst við vera svo miklar frekjur að reyna sífellt að sækja peninga á sömu staðina en við létum slag standa í ár og það gekk svona ótrúlega vel. Það kláruðust hjá okkur kallarnir og hefði vel verið hægt að selja fleiri,“ segir Júlíus og bætir við að hluti af því hversu gefandi þetta starf sé er velviljinn sem hann finni úr samfélaginu.

„Hann er alveg  rosalegur. Alveg sama hvar við komum þá er alltaf tekið vel á móti okkur. Eins ef við höfum verið í stórum útköllum, þá hafa einstaklingar og fyrirtæki úti í bæ komið færandi hendi og lánað bíla og annað slíkt. Ég man eftir útkalli fyrir austan þá fengum við líka bíla frá Trésmiðjunni Rein til að flytja útbúnað, það var ótrúlegt að upplifa þetta. Eins á sjónum höfum við verið að fá lánaða báta frá Gientle Giants og svo hefur Ingi Sveinbjörns alltaf verið klár með sinn bát ef það hefur þurft að ferja eitthvað. Þetta er alveg ótrúlega magnað að finna þennan stuðning úr öllum áttum,“ segir Júlíus stoltur að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast