Ný sirkussýning utandyra um allt land í sumar

Sirkushópurinn Hringleikur leggur land undir fót og sýnir Allra veðra von utandyra um allt land í sumar. Sýningin var sýnd í Tjarnarbíói í vor og hlaut góðar viðtökur áhorfenda á öllum aldri.

Allra veðra von hlaut á dögunum Grímuverðlaunin fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins 2021. Hópurinn verður á ferðinni um Norðurland í júlí:

  • Þann 23. júlí verður sýning á Dalvík, 24. júlí á Akureyri og 25. júlí í Ásbyrgi.

Sýningin er unnin í samstarfi við leikhópinn Miðnætti sem sér um leikstjórn, tónlist, búninga og leikmynd. Allra veðra von er ný sirkussýning þar sem sirkuslistin er notuð til að skoða tengsl mannsins við veðrið. Frá upphafi hefur veðrið verið stærsti örlagavaldur lífs á norðlægum slóðum, en með nútíma tækni, farartækjum, húsnæðiskosti og samfélagsgerð má segja að bein áhrif veðurs á daglegt líf okkar hafi dvínað. „Gjörvöll menning Íslendinga er þó sannarlega lituð af áhrifum þessa fyrsta og síðasta umræðuefnis landans og þegar litið er til framtíðar er ekki hjá því komist að horfast í augu við veðrið og þau tengsl sem við höfum við það. Tungumál sirkuslistarinnar er myndrænt og hrífandi form sem nær til áhorfanda á breiðum aldri, gjarnan óháð tungumáli,“ segir um sýninguna.

Sýningarferðin um landið er unnin í samstarfi við menningarstofnanir, sveitarfélög og landshlutasamtök.


Athugasemdir

Nýjast