„Hvert stefnir mannkynið?“

Guðrún Kristinsdóttir. Mynd/epe
Guðrún Kristinsdóttir. Mynd/epe

Guðrún Kristinsdóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði og útskrifaðist frá íþróttaskólanum á Laugarvatni árið 1980. Þar kynntist hún Ingólfi Freyssyni eignmanni sínum. „Við fluttum til Húsavíkur árið 1986 og höfum búið þar síðan. Við eigum þrjú börn og sjö barnabörn. Ég hef verið kennari við Borgarhólsskóla frá árinu 1986 fyrir utan tvö ár og hef alla tíð lesið mikið bæði bækur og ljóð,“ segir Guðrún sem er Bókaormur vikunnar.

Hvað er á náttborðinu?

Við Ingólfur erum núna að hlusta á bókina “Heimurinn eins og hann er” eftir Stefán Jón Hafstein. Þar er hann að tala um misskiptinguna í heiminum. Hann fjallar líka um að það hefur aldrei verið framleitt eins mikið af mat og aldrei sóað eins miklu af mat eins og við gerum í dag. Hvert stefnir mannkynið? Þetta er mjög áhugaverð bók sem vekur mann til umhugsunar um stöðuna í heiminum.

Einnig er ég með nýútkomna ljóðabók eftir skólasystur mína Draumey Aradóttur en við vorum saman í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Bókin heitir ” Varurð” skemmtilega uppsett ljóðabók með yndislegum ljóðum sem skilja mikið eftir.

Hvað lastu síðast?

Síðasta bókin sem ég las heitir „Leyndarmálið“, spennandi og skemmtileg saga sem erfitt er að leggja frá sér.

Í uppáhaldi?

Uppáhalds bókin mín er „Náðarstund” sem ég er búin að lesa tvisvar. Þetta er áhrifarík saga um ástir og örlög einstaklinga í byrjun nitjándu aldar. Ég var í sveit í mörg ár á sögusviði þessarar sögu og þekki því vel til bæjanna í Vatnsdal og landslagsins, þannig að ég lifði mig vel inn í söguna. Höfundur er Hannah Kent.

Uppáhalds höfundur?

Uppáhalds rithöfundurinn er Ólafur Gunnarsson en hann skrifaði „Öxin og jörðin,” virkilega vel skrifuð bók þar sem að ég datt alveg inn í söguna sem gerist á þeim tíma sem Jón Arason og synir hans eru hálshöggnir. Landslagslýsingarnar og hvernig hann segir frá þessari merku sögu þjóðarinnar heilluðu mig alveg upp úr skónum.

Greining birtist fyrst í  38. tölublaði Vikublaðsins

Athugasemdir

Nýjast